Ragna Árnadóttir hefur formlega tekið við sem nýr skrifstofustjóri Alþingis. Tók hún við lyklunum að Alþingi í dag frá Helga Bernódussyni fráfarandi skrifstofustjóra við hátíðlega athöfn.

Ragna gegnir embættinu fyrst kvenna og bauð Helgi hana sérstaklega velkomna þegar hann afhenti henni lyklana.

„Nú kemst ég ekki hérna inn nema með þínu leyfi“ sagði Helgi við hlátrasköll viðstaddra og óskaði hann Rögnu góðs gengis. Helgi starfaði á skrifstofu Alþingis í 36 ár en hann var ráðinn skrifstofustjóri Alþingis árið 2005. Áður starfaði hann sem aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis frá 1996.

Helgi vakti athygli á því að málþóf væri ósiður við fundarstörf þingmanna sem þyrfti að útrýma í kjölfar umræðna um 3. orkupakkan síðastliðið vor þegar hann var aðalræðumaður á hátíð Jóns Sigurðssonar sem haldin var í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í apríl.

Ragna er lögfræðingur að mennt, með embættispróf í lögfræði frá Háskóla  Íslands, auk þess að vera með LL.M. gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi. Ragna gegndi embætti dóms- og kirkjumálaráðherra og síðar embætti dómsmála- og mannréttindaráðherra. Undanfarin sjö ár hefur hún starfað sem aðstoðaraforstjóri Landsvirkjunar.