Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis og fyrrum dómsmálaráðherra, var í dag kjörin í stjórn Alþjóðasambands rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) á aðalfundi sambandsins í Genf. Hún mun því vera sjálfboðaliði í stjórninni næstu fjögur árin.

Að því er kemur fram í fréttatilkynningu Rauða krossins hafa Íslendingar einu sinni áður átt fulltrúa í stjórn Alþjóðasambandsins. Það var Guðjón Magnússon læknir, sem sat í stjórninni frá 1989 til 1993. Hann var á þeim tíma varaforseti Alþjóða Rauða krossins.

Í stjórninni sitja forseti, fimm varaforsetar og fulltrúar frá 20 landsfélögum hreyfingarinnar. Hlutverk hennar er meðal annars að vera ráðgefandi á milli aðalfunda Alþjóðadamabandsins, að ráða framkvæmdastjóra þess og sjá til þess að ákvörðunum aðalfundar sé framfylgt.