Ragnar Bjarnason, einn ástsælasti söngvari landsins sem hefur skemmt Íslendingum í marga áratugi, er látinn, 85 ára að aldri. Vísir greinir frá. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Helle Birthe Bjarnason.

Raggi Bjarna fæddist 22. september árið 1934. Hann var sonur hjónanna Bjarna Böðvarssonar og Láru Magnúsdóttur, en hjónin voru mikið tónlistarfólk. Lára söng með Dómkirkjukórnum í áratugi og faðir hans starfaði sem hljómsveitarstjóri

Raggi hóf ferilinn í tónlist sem trommuleikari. Þegar hann var 16 ára söng hann fyrst inn á plötu ásamt Sigurði Ólafssyni.

Raggi Bjarna hóf feril sinn sem trommuleikari.

Raggi Bjarna var gríðarlega afkastamikill söngvari og birtist á litla og stóra sviði Borgarleikhússins á síðustu árum hans í sýningunni Ellý. Þrátt fyrir veikindi missti hann ekki af einni sýningu.

Áhorfendur stóðu upp og fögnuðu þegar Raggi Bjarna tók lagið með Katrínu Halldóru á lokasýningu Elly síðastliðinn júlí. Hér fyrir neðan má sjá flutninginn.