Helgi Ólafsson, 93 ára rafvirki á Raufarhöfn, fékk fyrir nokkrum árum hugmynd um að smíða dreka úr járni og setja upp á hafnarsvæðinu.

Framan af segir Helgi að lítið hafi gengið að koma hugmyndinni í framkvæmd, svo hafi komist skriður á málið. Sonur hans er í hópi þeirra sem hafa komið að smíði drekans.

Fyrsta október síðastliðinn var drekinn svo vígður á hafnarsvæðinu. Helgi segir að sér hafi verið í mun að minnast síldaráranna, umsvifanna í bænum og sögu áræðis. Drekinn er landvættur fjórðungsins.

Helgi hefur afhent sveitarfélaginu drekann til eignar og umsjónar og stendur hann fyrir framan Hótel Norðurljós. Eldurinn er knúinn með olíu.

Kaffiveisla fór fram í Breiðabliki, félagsheimili aldraðra á Raufarhöfn að vígslu lokinni.

„Ég vona að drekinn verði þekkt kennileiti í bænum, þótt ég viti að Heimskautsgerðið verði alltaf í fyrsta sæti hér,“ segir Helgi, sem vonast til að drekinn auki enn aðsókn ferðamanna, sem þó hefur verið með mesta móti í sumar.

Aldurshöfðinginn kveðst glaður að hafa náð þessu markmiði sínu áður en hann heldur til friðsælli veiðilenda. Hann er kvæntur Stellu Þorláksdóttur frá Siglufirði og eiga þau sex börn, hann er handhafi fálkaorðu og var útnefndur iðnaðarmaður ársins fyrir tveimur árum.

Helgi starfar enn við tilfallandi rafvirkjun og hefur alla tíð verið sinn eigin atvinnurekandi.