Raftæki í tveimur íbúðum eyðilögðust eftir uppsetningu snjallmæla frá Veitum. Virðist sem svo að raftækin hafi eyðilagst eftir að straumur var tekinn af íbúð og settur aftur á. Engar viðvaranir eru í leiðbeiningum Veitna um að verja þurfi raftæki við skiptin.
Atvikið gerðist á heimili Róberts Marshall, fyrrverandi þingmanns og fjölmiðlamanns, á Melhaganum í Vesturbænum. Eftir að starfsmenn á vegum Veitna komu og settu upp svokallaða snjallmæla, til að mæla rafmagns- og vatnsnotkun, eyðilagðist hátalarakerfi á heimilinu sem og dyrabjallan. Ekki nóg með það heldur eyðilagðist þvottavél í íbúð nágranna.
Að öllum líkindum eru skemmdirnar á rafmagnstækjunum afleiðing þess að straumur var tekinn af og settur aftur á. En í þeim auglýsingum sem Veitur sendu var hvergi varað við að verja þyrfti raftæki. Aðeins að íbúar mættu búast við því að verða rafmagns- og vatnslausir á meðan á skiptunum stæði.
„Það eru hvergi leiðbeiningar um að maður þurfi að slökkva á viðkvæmum tækjum,“ segir Róbert, sem hefur rætt við bæði Veitur og tryggingafyrirtækið, VÍS, sem hafna bótaábyrgð. Nágranni Róberts hefur einnig sent inn erindi vegna sinna skemmda.
Hvað hátalarana varðar, sem eru að gerðinni Presonus, fékk sagan hins vegar farsælan endi en Hljóðfærahúsið bætti þá. „Ég fékk nýja hátalara endurgjaldslaust,“ segir Róbert. „Hljóðfærahúsið er með góða ábyrgðartilfinningu gagnvart sínum viðskiptavinum og þjónustan er til fyrirmyndar.“
Samkvæmt Rún Ingvarsdóttur, sérfræðingi í samskiptamálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem á Veitur, er búið að skipta um 24 þúsund snjallmæla á veitusvæði Veitna, þar af um 17 þúsund rafmagnsmæla. Verkefnið hófst í janúar á þessu ári og stefnt er að því að ljúka því árið 2025.
„Veitum er ekki kunnugt um nein atvik eða ábendingar um að mælaskipti hafi haft áhrif á önnur raftæki á heimilum fólks sambærileg málinu sem spurt er um,“ segir hún. VÍS hafi tekið afstöðu til málsins og hafnað bótakröfu. „Skoðun á umræddu atviki leiddi ekkert óvenjulegt í ljós eða að uppsetning á mælum hefði skemmt raftæki.“
Aðspurð um hvers vegna fólki sé ekki bent á að slökkva á viðkvæmum raftækjum meðan snjallmælar eru settir upp og að hvort ekki sé ástæða til þess að endurskoða verklagið, einkum í ljósi þess að raftæki í annarri íbúð skemmdust, segir Rún að verkferlarnir séu skoðaðir reglulega. Meðal annars eftir að ábendingar berast.
„Á meðan á mælaskiptum stendur þarf að taka rafmagnið af viðkomandi íbúð eða húsi, en raftæki eiga að þola fyrirvaralaust straumleysi, sem gerist reglulega á hverju heimili,“ segir Rún. „Þó þekkjast dæmi þess að gömul tæki þoli það illa. Það hefur þó ekkert með uppsetningu á snjallmælinum að gera enda breytir mælirinn ekki spennu á húsinu.“