Rafrettunotkun barna er á hraðri niðurleið samkvæmt tölum frá Rannsóknum og greiningu, sem kannar neyslu barna í febrúar á hverju ári. Dagleg rafrettunotkun barna í 10. bekk grunnskóla á landinu öllu er nú 6 prósent en var hæst 10 prósent árið 2018. Í Reykjavík hefur notkunin helmingast á aðeins einu ári, úr 12 prósent niður í 6.

„Það má segja að samfélagið hafi vaknað gagnvart þessu á síðasta ári. Fréttir fóru að berast af veikindum fólks og almennt séð fórum við að tala um skaðsemi rafretta,“ segir Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu.

Í september greindi Landlæknisembættið frá því að lungnaveikindi unglings hér á landi tengdist rafrettu­notkun. Fjöldi sambærilegra mála í Bandaríkjunum var þá um 500 talsins.

Á undanförnum árum hefur mikið verið deilt um hvort rafrettur séu skaðlegar. Meðal annars hefur íslenskur læknir, Guðmundur Karl Snæbjörnsson, ítrekað komið fram í fjölmiðlum og varið rafrettunotkun, vegna þess að hún haldi fólki frá tóbaksnotkun.

„Við sáum það í gögnunum okkar að unglingar upplifðu mildara viðhorf foreldra sinna gagnvart rafrettum en sígarettum eða áfengi. Að foreldrarnir hafi ekki talið þær jafn skaðlegar,“ segir Margrét.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu.
Mynd/Aðsend

Ný lög um rafrettur voru sett á síðasta ári þar sem meðal annars var lagt bann við að hafa auglýsingar eða myndmál sem gæti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna. Einnig bann við að nota rafrettur í skólum, almenningsfarartækjum, íþróttahúsum og fleiri stöðum. Þá hefur farið fram mikil umræða og fræðsla um skaðsemi rafretta sem nú er að skila sér í mikilli niðursveiflu í notkun. „Þetta er mjög gott dæmi um hvað hægt er að gera með markvissum aðgerðum til þess að vernda börnin okkar,“ segir Margrét.

Samkvæmt Margréti skiptir framboðið miklu máli. Bein tenging sé milli notkunar og fjölda rafrettubúða og því sáralítil notkun á dreifbýlum svæðum þar sem aðgengið er lítið.

Rafrettur hafa ekki verið nema nokkur ár á markaðnum en urðu mjög fljótt vinsælar. Aðspurð um hvort rafrettur séu að detta úr tísku eða þyki ekki jafn spennandi lengur, segir Margrét að tískubylgjur skipti vitaskuld máli. En að markaðssetningin hafi verið mjög grimm og markhópurinn ungt fólk. „Líkt og með orkudrykkina. Við sjáum að neysla orkudrykkja er komin upp úr öllu valdi meðal barna,“ segir hún.

„Núna sjáum við að þessir nikótínpúðar eru nýjasta æðið og markaðssettir sem fullkomlega skaðlaust fyrirbæri. Við munum taka þá inn í mælingar okkar í haust.“

Líkt og rafrettunum var á sínum tíma stillt upp til höfuðs sígarettum, hefur nikótínpúðunum nú verið stillt upp til höfuðs munn­tóbaki. Líkt og rafrettuvökvar eru púðarnir seldir í litríkum umbúðum og með hinum ýmsu bragðtegundum.

Í tölum Rannsókna og greiningar kemur einnig fram að munntóbaksnotkun hafi aukist um tæp 3 prósent hjá 10. bekkingum á milli áranna 2019 og 2020 og áfengisneysla aukist um rúm 2 prósent. Tóbaks- og kannabisreykingar hafa hins vegar nánast staðið í stað. Könnunin er lögð fyrir alla grunnskólanema á landinu og svarhlutfallið er um 85 prósent.