Ný rannsókn bendir til að unglingar og ungmenni sem noti rafrettur séu mun líklegri en aðrir til að greinast með COVID-19.

Eru þessar niðurstöður rannsakenda við Stanford-háskóla byggðar á svörum rúmlega 4.300 einstaklinga í Bandaríkjunum á aldrinum 13 til 24 ára.

Allt að níu sinnum hærri líkur

Þar kom í ljós að þátttakendur sem sögðust hafa notað rafrettu voru fimm sinnum líklegri til að greinast með COVID-19 en þeir sem höfðu ekki gert það.

Jafnframt voru líkurnar 2,6 sinnum hærri hjá þeim sem sögðust hafa notað rafrettu á síðustu 30 dögum.

Þá voru svarendur sem höfðu bæði reykt sígarettur og notað rafrettur sjö sinnum líklegri til að greinast. Þeir sem sögðust hafa gert bæði á síðustu 30 dögum voru nærri níu sinnum líklegri til að greinast.

Fyrsta rannsókn sinnar tegundar

Er um að ræða fyrstu rannsóknina sem skoðar tengsl rafrettunotkunar og COVID-19 en áður höfðu vísindamenn viðrað áhyggjur sínar af því að notkun slíkra tækja gæti gert lungu fólks viðkvæmari fyrir sjúkdómnum.

„Unglingar og ungmenni þurfa að vita að ef þú notar rafrettur þá ertu líklega í bráðri áhættu á að fá COVID-19 sýkingu þar sem þú ert að skaða lungun þín,“ er haft eftir Bonnie Halpern-Felsher, prófessor í barnalækningum, í tilkynningu frá Stanford.

Hún segist hafa búist við því að sjá einhverja fylgni þarna á milli en að þessar afgerandi niðurstöður hafi komið rannsakendum á óvart.

Aðrar skýringar geti líka haft áhrif

Halpern-Felsher segir að ýmsar aðrar skýringar geti verið á þessari fylgni, til að mynda að ungt fólk sé að deila rafrettum sínum með öðrum og fjarlægi andlitsgrímur þegar það notar rafrettur innan um annað fólk.

Þá sé jafnframt möguleiki að gufan sem það andi að sér geti borið kórónaveiruna.

Aðra rannsakendur grunar að bein tengsl séu milli rafrettunotkunar, lungnaskaða og að vera berskjaldaður fyrir veirunni.

„Þessi rannsókn sýnir okkur nokkuð skýrt að ungmenni sem nota rafrettur eða reykja sígarettur samhliða því eru í aukinni áhættu, og það er engin lítil aukning – hún er mikil,“ er haft eftir Shivani Mathur Gaiha, sem leiddi gerð rannsóknarinnar.