Garðyrkjubændur hér á landi muna ekki eftir öðru eins tíðarfari og verið hefur það sem af er vetri, en alauð jörð gerir það að verkum að þeir þurfa að lýsa gróðurhús sín miklu meira en í vanalegu árferði.

„Aukinn kostnaður vegna þess hleypur á hundruðum þúsunda fyrir stórframleiðendur,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands og garðyrkjubóndi í Ártanga í Biskupstungum, „og það er bagalegt, því nú á þessum árstíma er framleiðslan á bæði blómum og grænmeti hvað mest,“ bætir hann við.

Þetta séu sérstakir tímar. „Nú er það alsvart, maður,“ segir Gunnar. „Suma daga birtir ekki af degi – og við þurfum því, flestir hverjir, að lýsa að minnsta kosti um fimmtán prósentum meira en vanalega þegar snjóa nýtur við. Og það kostar sitt,“ segir Gunnar. Niðurgreiðslur ríkisins á raforkuflutningi til bænda taki ekki tillit til þessara aðstæðna og því lendi þessi þungi kostnaður að fullu á framleiðendum.

„Venjulega þegar snjórinn nær að lýsa upp mesta skammdegið getum við garðyrkjubændur slökkt á lýsingunni í upp undir sex tíma yfir hádaginn frá hausti fram á vor, en því er ekki að heilsa núna þegar það er auð jörð um allt land með viðvarandi súld sem eykur enn á dimmuna,“ segir Gunnar Þorgeirsson.