Innheimt verðmæti netglæpamanna í rafmynt jukust um 80 prósent á síðasta ári. Fóru úr 7,8 milljörðum dollara í 14, eða tæpar tvær trilljónir íslenskra króna. Þetta kemur fram í greiningu tæknifyrirtækisins Chain­analysis sem greint hefur hreyfingar á veskjum sem tengd eru ólöglegri starfsemi. Hér á Íslandi eru töpuð heildarverðmæti netglæpa komin yfir 2 milljarða króna og lögreglan verður sífellt meira vör við notkun rafmyntar í þeim.

Langstærstur hluti netglæpa með rafmyntum er svindl og fjárkúgun. En mesti vöxturinn er hins vegar í hreinum þjófnaði, framkvæmdum af hökkurum. Hefur þetta vaxið um meira en 500 prósent og telur nú yfir 3 milljarða dollara. Hefur það færst í aukana að hakkarar nýti sér veikleika í DeFi-kerfi, sem notað er til að hreyfa rafmyntir með kvöðum, til dæmis sem lán.

„Við sjáum það að stolnum fjármunum er fljótt skipt yfir í rafmyntir og eftir það er rekjanleiki þeirra eiginlega horfinn. Skráningin innan bitcoin kerfisins er mjög skýr, en það er ekki hægt að sjá hver er bak við skráninguna,“ segir Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður hjá miðlægri deild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem sér um netglæpi. Bitcoin er langmest notaða rafmyntin.

Fjölgun hefur verið í glæpum með rafmyntir hér á Íslandi, rétt eins og annars staðar. Mest í svindli og kúgun. Einnig hafa komið upp þjófnaðarmál, þó ekki tengd DeFi. „Við höfum hins vegar mál þar sem einhver hakkari hefur komist yfir rafmyntareikninga Íslendinga og tæmt þá. Þá kemur upp áhugaverð pæling um hvar á að rannsaka slíkt brot, því tjónið hleypur á milljónum en gerðist í engu landi.“

Jökull segir þá sem stunda netglæpi yfirleitt ekki brjóta af sér í heimalandinu

Samkvæmt Jökli þarf aðstoð erlendra lögregluembætta til þess að reyna að komast að því hvar illa fengið fjármagn endar. Slíkt yrði ekki gert nema í málum sem vörðuðu mjög háar upphæðir, hryðjuverk eða aðra mjög alvarlega glæpi. Vinnan er einfaldlega of mikil og tímafrek. Hér á landi hefur aldrei tekist að endurheimta fjármuni sem umbreytt hefur verið í rafmyntir.

Rafmyntir hafa breytt því hvernig netglæpamenn þvætta peninga og gera þá órekjanlega. Áður fyrr voru peningar sendir hratt á milli landa, sem gerði lögreglu erfitt að rannsaka færslurnar. Mikinn tíma tekur að fá upplýsingar frá hverju landi í keðjunni, allt upp undir hálft ár.

„Til að einfalda málið eru glæpamenn farnir að senda fjármunina beint til fyrirtækja sem yfirfæra þá í rafmyntir,“ segir Jökull og nefnir dæmi um aðferðir sem þeir nota. „Algengt er að svindlararnir fái fólk til að senda sér afrit af vegabréfum og öðrum skilríkjum, sem það gerir í góðri trú, en nota það til að stofna reikninga í þeirra nafni hjá rafmyntamiðlurum. Þannig að það sem við sjáum er að A leggur inn á sinn reikning, en í raun er allt annar sem stjórnar reikningnum. Þeir peningar eru síðan teknir og breytt í rafmyntir og þeim peningum er stolið.“

Aðspurður um hvort lögreglan hafi orðið vör við að Íslendingar væru að taka þátt í þessu svindli segist Jökull ekki hafa miklar upplýsingar um það. „Við höfum séð fjármuni fara um Ísland en við höfum ekki vitneskju um neina hér á landi sem eru stórtækir í brotunum. Þeir sem stunda netglæpi brjóta yfirleitt ekki af sér í heimalandinu.“