Orkukreppan hefur leikið rafmyntafyrirtæki grátt. Sífellt fleiri ríkisstjórnir verða afhuga iðnaðinum og virði myntanna hefur lækkað mikið.

Þeir sem versla með og grafa eftir rafmyntum sjá fram á erfiðan vetur. Sífellt er þrengt að námagreftri og nýir staðir sem opnast hafa reynst óstöðugir. Hlutfall bitcoin sem grafið er eftir á Íslandi hefur lækkað úr 8 prósentum niður í innan við 0,2 prósent.

Orkukreppan hefur leikið rafmyntaiðnaðinn afar grátt. Mörg orkufyrirtæki hafa tekið þá ákvörðun, eða verið fyrirskipað, að stöðva orkusölu til rafmyntagraftar eða bæta ekki meira við.

Landsvirkjun er eitt þessara fyrirtækja, en í desember síðastliðnum var tekin ákvörðun um að auka ekki við orkusölu til rafmyntagraftar þrátt fyrir gríðarlega mikla eftirspurn að utan.

Um það leyti var virði rafmynta í hæstu hæðum. Þann 8. nóvember mældist virði bitcoin, langstærstu rafmyntarinnar, tæplega 8,8 milljónir. Virðið var byrjað að falla hratt fyrir stríðið í Úkraínu en það hjálpaði ekki til.

Um miðjan júní var virðið komið undir 2,5 milljónir króna en hefur verið nokkuð stöðugt síðan þá. Margir kvíða þó vetrinum þegar þrengt gæti enn frekar að orkunni og rafmyntagröftur er orkufrekur iðnaður svo vægt sé tekið til orða.

Enn þá eru nærri 80 prósent af þeirri orku sem fer til íslensku gagnaveranna notuð til að grafa eftir rafmyntum, það er Etix, Atnorth, Reykjavík Data Center og Verne.

Stjórnendur eru þó farnir að horfa til þess að skipta þeim út fyrir annars konar gagnageymslu. Til dæmis greindi Dominic Ward, forstjóri Verne, frá því í viðtali við Kjarnann að þegar væri búið að ákveða að framlengja enga samninga við bitcoin-grafara.

Um árabil var langmest af rafmynt heimsins grafin í Kína. Kínversk stjórnvöld hafa hins vegar snúist gegn rafmyntum og bannað eða þrengt verulega að greftrinum. Hefur hlutfall þess bitcoin sem unnið er í Kína lækkað úr 80 prósentum í 20 og mun á endanum fara niður í 0.

Texasfylki bauð rafmyntum opinn faðminn og eru Bandaríkin því í dag sá staður þar sem mest er grafið. Til að mynda 38 prósent alls bitcoin.

Samkvæmt Bloomberg hefur árið 2022 hins vegar leikið námufyrirtækin í Texas grátt því hitastigið hefur verið hátt og erfitt að halda búnaðinum köldum. Þá hafa reglulega komið upp rafmagnstruflanir og þar sem virði bitcoin hefur verið í frjálsu falli eiga fyrirtækin erfitt með að borga sína reikninga.

Næstflestir flúðu til Kasakstan, 13,2 prósent, og þar er ástandið lítið skárra. Afar miklar truflanir hafa verið á bæði raforkudreifingu og netsambandi þar í landi frá áramótum. Þarlend stjórnvöld hafa líka snúist gegn rafmyntaiðnaðinum og eru nú sögð íhuga 500 prósenta skatt á allan rafmyntagröft samkvæmt Investment Monitor.

Ýmsir veltu því fyrir sér hvort Rússar myndu taka við því hlutverki að grafa eftir rafmyntum fyrir heiminn. Þeir sætu á nægum birgðum af orku sem færri vilja kaupa af þeim eftir að stríðið í Úkraínu hófst. En svo er ekki því í síðasta mánuði undirritaði Vladímír Pútín lög þar sem öll viðskipti með rafmyntir eru bönnuð.