Erlend rafmyntafyrirtæki hafa falast eftir meiri orku til náma­graftar hér á landi eftir að kínverska ríkisstjórnin ákvað að úthýsa þeim. Hér er þó ekki til næg umframorka að bjóða þeim.

Kínverska ríkisstjórnin hefur snúist mjög harkalega gegn rafmyntum, bæði gegn viðskiptum með þær og námagreftinum sem er afskaplega orkufrekur. Alls 65 prósent af grefti heimsins fara fram í Kína og nú eru fyrirtækin að leita sér að nýjum heimkynnum.

„Við finnum fyrir stórauknum áhuga á uppbyggingu gagnavera sem eru eingöngu fyrir rafmyntir,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, upplýsingafulltrúi HS Orku. „Við heyrum að það sé vegna þess sem er að gerast í Kína og gerum ráð fyrir því að verið sé að leita annars staðar líka.“

Flestar námurnar í fjórum héruðum

Flestar námurnar eru í fjórum héruðum, Sichuan og Yunnan, þar sem vatnsafl er nægt, og í kolahéruðunum Xianjiang og Innri-Mongólíu. Rafmyntagröftur er hvort tveggja farinn að taka toll af loftslagsmarkmiðum Kínverja og ríkisstjórnin er ekki hrifin af myntum sem hún hefur litla stjórn yfir.

Sum ríki eða svæði hafa boðist til að taka við námafyrirtækjum. Til dæmis Flórída- og Texasríki í Bandaríkjunum og Kasakstan. Þetta eru þó síður umhverfisvænir kostir því í Flórída er aðallega keyrt á kjarnorku, gasi í Texas og kolum í Kasakstan. Kanada þykir umhverfisvænn kostur en þar er orkan of dýr fyrir námagröft og Evrópa hefur ekki mikla orku til skiptanna.

„Fólk er að athuga hvort það sé til rafmagn og sjá hvert verðið er. Þessi gröftur eltir ódýrasta raforkuverðið,“ segir Jóhann. Þessi áhugi, að byggja upp ný gagnaver fyrir námagröft, komi að utan. Íslensku gagnaverin leggi áherslu á aðra hluti og til lengri tíma þó að þau hafi einnig boðið upp á námagröft.

Jóhann Snorri Sigurbergsson, upplýsingafulltrúi HS Orku
Mynd/Aðsend

Enginn vilji til að reisa virkjanir

„Við lofum þeim ekki neinu. Við höfum litið svo á að þessi hluti gagnaveranna, það er námagröfturinn, sé leið til að losa út umframorku,“ segir Jóhann. Enginn vilji sé til að reisa virkjanir fyrir þetta. „Eins og staðan er núna eigum við enga umframorku. Þeir eru einnig að leita eftir ódýrari orku en er í boði hjá okkur.“

Orkunotkun gagnaveranna margfaldaðist árin 2014 til 2019 en samkvæmt orkuspá þess árs er gert ráð fyrir að notkunin haldist nokkuð stöðug næsta áratug. Um það leyti var varað við orkuskorti í landinu en orkunotkun stórnotenda hríðféll í faraldrinum vegna minnkandi eftirspurnar eftir áli og kísil. Nú er eftirspurnin á uppleið og orkunotkun stórnotenda sömuleiðis.