Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur ekki upplýsingar um og fylgist ekki með þeirri rafmynt sem „grafin er upp“ í námum í íslenskum orkuverum, en talið er að allt að 8 prósent bitcoin, stærstu myntarinnar, verði til á Íslandi. Um 60 fyrirtæki stunda hér námagröft en aðeins þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti með rafmynt og stafræn veski eru skráningarskyld, þrjú talsins.

Bandarísk stjórnvöld hafa í auknum mæli reynt að fylgjast með notkun rafmynta því þær eru taldar hornsteinn í ýmissi ólöglegri starfsemi, meðal annars hryðjuverkastarfsemi, fíkniefnaviðskiptum og dreifingu barnakláms. Í skýrslu bandaríska fjármálaráðuneytisins frá árinu 2017 kom meðal annars fram að Azym Abdullah, sem hýsti vefsíðu hryðjuverkasamtakanna ISIS á Íslandi árið 2014, hafi notað bitcoin í sínum viðskiptum, sem og níu aðrir þekktir hryðjuverkamenn.

Stór hluti orku fer í gagnaver

Rafmyntir hafa verið mikið í deiglunni á Íslandi, aðallega vegna þeirrar miklu orku sem framleiðslan krefst. Alls 5 prósent orkuframleiðslu landsins er bundin í gagnaverum og um 90 prósent af því fer í námagröft. Kaupendurnir eru oft og tíðum fyrirtæki sem landsmenn þekkja illa, svo sem HIVE Block­chain, Genesis Mining og Bitfury, en mala gull á starfseminni, þrátt fyrir hátt orkuverð.

Fáar reglur gilda hins vegar um þessa „auðlind“ sem streymir héðan út í heim. Samkvæmt svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Fréttablaðsins er rafmynt, eða sýndarfé, ekki viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill og fellur því ekki undir ákvæði laga um greiðsluþjónustu eða útgáfu og meðferð rafeyris. „Þá þurfa markaðir með sýndarfé ekki starfsleyfi, falla ekki undir lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og lúta ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins,“ segir í svarinu. „Varðandi umfang viðskipta þá býr Seðlabankinn ekki yfir slíkum upplýsingum.“

Vara við áhættunni

Fyrirtæki sem „blanda rafmynt“, það er, gera erfiðara um vik að rekja færslur, hafa verið til skoðunar hjá bandarískum stjórnvöldum undanfarið. Fréttavefurinn Buzzfeed, sem einblínir á netmál, greindi nýlega frá því að ekkert af 30 stærstu blöndunarfyrirtækjunum væri skráð hjá fjármálaráðuneytinu, þrátt fyrir reglur þar að lútandi.

Á síðasta ári var eigandi tveggja, Helix og Coin Ninja, sektaður um 60 milljónir dollara, eða tæpa átta milljarða króna, fyrir að fylgjast ekki með og tilkynna grunsamlegar færslur. Ein af færslum fyrirtækjanna upp á tvö þúsund dollara fór til hýsingaraðila barnakláms.

Þótt Fjármálaeftirlitið fylgist ekki með uppgrafinni rafmynt varar það við áhættunni af notkun hennar. Þeir sem grafa hér rafmynt selja í mörgum tilfellum alls kyns búnað og þjónustu í tengslum við rafmyntir. Bitfury, sem grafa hér, þróuðu fyrir þremur árum innanbúðaraðferð við að fylgjast með færslum, meðal annars til að auðvelda lögreglurannsóknir. Óvíst er hversu mörg önnur námufyrirtæki gera það.