Rafmagnslaust er á lögreglustöðinni á Hverfisgötu og hefur verið í um klukkutíma.

Viðbót klukkan 12:25: Rafmagn er nýkomið aftur á. Upprunaleg frétt fylgir hér á eftir.

Ekkert hefur gengið að koma varaafli stöðvarinnar í gagnið en ástandið hefur haft mikil áhrif á starfsemi lögreglunnar sem hefur til að mynda engan aðgang að tölvukerfum sínum.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafði engar skýringar á reiðum höndum aðspurður um það hvað hafi átt sér stað. Hann segir nú vera unnið að því að leysa málið sem fyrst.

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa hjá Veitum, hefur lögreglan tilkynnt þeim um atvikið. Hún segir ekkert benda til þess að svo stöddu að bilun sé í dreifikerfi Veitna. Þá hafi engir aðilar í nágreninnu tilkynnt rafmagnstruflanir.

„Eins og staðan er núna þá er lögreglan bara að kanna málið innandyra hjá sér.“

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum frá Veitum og nýjum upplýsingum frá lögreglunni.