Sala á nýjum bílum í nýliðnum ágústmánuði dróst saman um 3,7 prósent miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu. Alls voru skráðir 1.465 nýir fólksbílar í mánuðinum.

Fyrstu átta mánuði ársins voru nýskráðir fólksbílar 15.033 talsins sem er 11,8 prósenta samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra.

Af þeim rúmlega fimmtán þúsund nýju fólksbílum sem seldust fyrstu átta mánuði ársins voru 42 prósent með bensínvél, 39 prósent með dísilvél og 12 prósent voru rafmagnsbílar. Aðrar tegundir voru um sjö prósent nýrra bíla.