Rafmagnslaust varð í einhverjum götum miðbæjarins fyrir stundu. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins fór rafmagnið af á einhverjum stöðum á Laugaveginum, Ingólfsstræti og Austurstræti.

Breki Logason hjá Orkuveitunni staðfestir að rafmagnið hafi farið af í stutta stund. Hann segir ekki ljós á þessari stundu hve stórt svæði varð rafmagnslaust eða hver orsök rafmagnsleysisins var en að leitað sé skýringar.

Að hans sögn er rafmagnið komið á aftur.

Uppfært kl. 14.25

Tilkynning hefur verið birt á vef Veitna:

Vegna háspennubilunar er  rafmagnslaust í miðbæ Reykjavíkur mán. 12. júlí kl. 13:40-14:30. 

Við bendum þér á að slökkva á þeim rafmagnstækjum, sem ekki slökkva á sér sjálf og geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Það á sérstaklega við um eldavélar, mínútugrill og fleiri hitunartæki. Eins ráðleggjum við þér að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp.

Gættu þess að hafa kæli- og frystiskápa ekki opna lengur en þörf krefur.

Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.