Aurskriður falla áfram í Skagafirði. Rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi féll skriða niður skíðasvæðið í Tindastól og reif í sundur Skagalínu og ljósleiðara Mílu og neyðarlínunnar.

Rafmagnsleysið hafði áhrif á nokkra sveitabæi norðan af Sauðárkróki en búið var að koma rafmagni á um klukkan hálf eitt.

Sigurjón Jóhannesson, deildarstjóri Netreksturs RARIK á Norðurlandi, segir rafmagninu hafa slegið út á Skaganum og Reykjaströnd en að Sauðárkrókur hafi alveg sloppið enda er önnur lína tengd bænum.

„Við erum búin að koma notendum í samband þannig það er ekkert svæði rafmagnslaust nema skíðasvæðið sem er ekki í notkun,“ segir Sigurjón.

Miklar leysingar

Brynjar Gunnarsson, starfsmaður á rekstrarsviði RARIK, mætti á svæðið í nótt til að leita að rót vandans og sá að aurskriða hefði fallið á skíðasvæðinu og eyðilagt háspennulínu og ljósleiðara Mílu og neyðarlínunnar.

„Það var allt í drullu og vatni og grjót út um allt,“ lýsir Brynjar í samtali við Fréttablaðið. Hann segir nær allan snjóinn í fjallinu hafa bráðnað í góða veðrinu og eftir rokið í nótt og telur líklegt að lónið fyrir ofan skíðasvæðið hafi yfirfyllst eða að bakki hafi farið úr og flætt úr lóninu. Hann sé ekki búinn að staðfesta það.

„Þannig það hafa verið miklar leysingar þarna,“ segir Brynjar.

Allt í drullu við skíðasvæðið.
Mynd: Brynjar Gunnarsson

Enn hætta á annarri skriðu

Línan verður keyrð á varaafli í bili en eftir helgi munu starfsmenn RARIK taka stöðuna og ráðast í viðgerðir.

„Við treystum okkur ekki til að fara að gera við þetta strax. Það er enn lítill snjór þarna upp frá og mikil bleyta og við viljum ekki skapa óþarfa hættu.“

Brynjar mætti á svæðið rétt eftir miðnætti og sá þá að línan hafði farið í sundur eftir að aurskriða féll úr fjallinu.
Mynd: Brynjar Gunnarsson

Skriða féll í Varmahlíð

Síðdegis í gær féll aurskriða á tvö hús í Varmahlíð. Þá hafði bakki fallið úr götunni fyrir ofan Laugaveg í Varmahlíð og aur fallið niður brekkuna á íbúðarhús. Til allrar lukku meiddist enginn.

Almannavarnanefnd Skagafjarðar fundar nú um stöðuna en níu íbúðarhús voru rýmd.

Íbúi í Varmahlíð sagði vandamálið hafa verið viðvarandi í um fjóra mánuði. Brekkan í næstu götu fyrir ofan okkur hefur verið smátt og smátt að skríða fram í um fjóra mánuði og bæjaryfirvöld sem og hitaveitan vitað af hættunni en lítið aðhafst.