Rafvirkjar hafa unnið mikið og gott starf við Háskóla Íslands eftir vatnslekann mikla síðasta fimmtudag og komið rafmagni aftur á í Gimli.

Jón Atli Benediktsson rektor segir starfið hafa gengið vel. „Unnið hefur verið ötullega alla helgina á Háskólatorgi og í Gimli við að þurrka og ræsta og koma öllu í eins gott horf og nokkur er kostur eftir flóðið aðfaranótt fimmtudags,“ segir Jón Atli.

Fimm byggingar Háskóla Íslands urðu fyrir tjóni eftir að kaldavatnslögn gaf sig með þeim afleiðingum að rúm tvö þúsund tonn af vatni flæddi inn í kjallara Háskóla Íslands. Mesta tjónið var í Gimli og í Háskólatorgi.

Í gær náðist að hleypa þar á straumi að nýju á allar hæðir og er nettenging einnig komin á í byggingunni. Rektor segir því ekkert til fyrirstöðu að regluleg starfsemi hefjist á morgun mánudag á 2. og 3. hæð í Gimli. Áfram verður þó lokað á jarðhæðinni vegna framkvæmda. Sama gildir um jarðhæðina á Háskólatorgi. Opið verður í Hámu og Bóksölu stúdenta á morgun.

Þá hefur tekið lengri tíma að þurrka gólfið í Stúdentakjallaranum en gert er ráð fyrir að opna fyrir hefðbundna starfsemi næsta þriðjudag.

„Ég vil þakka öllum enn og aftur sem lagt hafa hönd á plóginn í vikunni sem leið og nú um helgina fyrir frábært starf við erfiðar aðstæður. Ég óska ykkur öllum góðs gengis í vikunni fram undan,“ segir rektor.