Í kringum 110 viðskiptavinir Rarik í Jökuldal misstu rafmagn vegna óveðursins sem gekk yfir um helgina. Að sögn Helgu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá Rarik ganga þó viðgerðir vel og ætti rafmagnað komast aftur á fljótlega hjá öllum sem misstu afl vegna veðursins.

„Þetta lítur mjög vel út hjá okkur. Það er verið að setja inn rafmagn á Jökuldalinn bara á næstu mínútum ef það er ekki búið og þá koma allir inn,“ segir Helga en í heildina urðu í kringum 500 manns fyrir truflunum í tengslum við veðurofsann á norður og austurlandi.

„Það verður þó einn fjarskiptapunktur sem verður eftir en allir ábúendur í dalnum fá rafmagn bara á næstu mínútum,“ segir Helga en búist er við smávægilegum áframhaldandi fjarskipta truflunum. „Um tvö leitið þá kemur síðasti punkturinn inn en það eitthvað sem snýr meira að fjarskiptum en rafmagni,“ segir hún.

Helga segir að aðallega hafi það verið ísing á línum og vindskaði sem olli því að dreifikerfið hafi farið úr sambandi „Það voru einhver staurabrot í þessu veðri í jökuldalnum,“ segir hún en skemmdirnar hafi ekki komið á óvart þar sem veðurspá hafi verið mjög slæm.

„Við áttum von á truflunum og í raun fór betur en á horfðist með flutningskerfið svo þetta varð minna umfang en við áttum von á,“ segir Helga „Það er jákvætt þó vissulega sé það ekki gaman fyrir þá sem urðu fyrir truflunum. Það er jafn slæmt fyrir þá, hvort sem það er einn eða tíu þúsund sem detta út,“ segir hún.