Fyrstu myndir af Porsche Macan EV hafa nú birst almenningi, en ef laust er þess ekki langt að bíða að þessi bíll verði kynntur. Bíllinn er byggður á nýjum undirvagni og verður annar bíll Porsche sem er alveg rafdrifinn. Um aðra kynslóð bílsins er að ræða og eins og sjá má af myndinni er bíllinn með meira kúpulagi en áður auk þess að taka útlitseinkenni frá Taycan-rafbílnum. Er hugmyndin hjá Porsche að bjóða nýja bílinn sem rafbíl samhliða fyrri kynslóðinni. Munu kaupendur þannig geta valið raf bíl í nýja bílnum eða bíl knúinn brunahreyfli. Þrátt fyrir dulbúnað kringum framljósin má sjá að þau eru mun þynnri en áður sem er eins og á Taycan-bílnum. Að aftan er einnig nýr ljósabúnaður auk stillanlegs afturvængs.

Porsche Macan EV mun koma á markað seint á næsta ári sem 2022 árgerð og verður á nýja PPE-rafbílaundirvagninum. Ekki er mikið vitað um þessa nýju gerð fyrir utan það að undirvagninn býður upp á sama 800 V rafkerfi sem styður 350 kW hleðslustöðvar. Undirvagninn mun einnig geta farið undir stærri ökutæki svo búast má við honum í næstu kynslóð Cayenne til að mynda. Búast má við að nýi bíllinn hafi jafnvel yfir 500 km drægi enda þarf hann þess til að geta talist samkeppnishæfur. Helstu keppinautar hans verða Tesla Model X, Ford Mustang Mach E og Jaguar I-Pace svo eitthvað sé nefnt.