„Þetta kemur öðru hvoru upp,“ segir Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Það virðist ekki vera sérstaklega erfitt að komast yfir þetta,“ segir Gunnar um rafbyssuárásina.

„Þetta er ekki sambærilegt við rafbyssur lögreglu. Þetta gefur eitthvað stuð en er ekki eins öflugt og þessar lögreglurafbyssur. En þetta er óþægilegt,“ segir Gunnar sem segir að roða hafi gætt hjá drengjunum sem urðu fyrir stungunni.

Árásin tilefnislaus

„Þessir drengir sem gerðu árásina og hinir sem voru aðeins yngri tengjast ekkert. Ég veit ekki hvað þeim gekk til,“ segir Gunnar.

Drengirnir sem réðust á hina eru ekki úr Kórahverfinu og voru ekki nemendur í Hörðuvallaskóla að sögn lögreglu.

Gunnar segir það ekki algengt að ofbeldismál komi upp hjá börnum en það komi þó fyrir öðru hvoru. Gunnar segir alls kyns rafbyssur hafa komið upp í hendurnar á lögreglu. Þessi tiltekna rafbyssa hafi litið út eins og vasaljós og er mögulegt að fólk verði sér út um tækin á netinu eða erlendis.

Rétt fyrir ellefu í gærkvöldi fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um líkamsárás á skólalóð í Kópavogi. Ráðist hafði verið á 15 ára gamla drengi með rafbyssu og þeir voru með sjáanlega áverka. Árásarmennirnir eru fjórir ungir menn sem á aldrinum 16 - 17 ára og héldu þeir einum drengjanna meðan þeir stuðuðu hann, að sögn lögreglu.

Bíll þeirra var svo stöðvaður í Rofabæ, þar sem þeir voru handteknir. Þeir voru færðir á lögreglustöð og náð í foreldra þeirra. Skýrsla var tekin af þeim að foreldrunum viðstöddum og þeir voru svo látnir lausir. Framhald málsins verður unnið af lögreglu í samstarfi við Barnaverndaryfirvöld.

Foreldrar drengjanna fóru með þá á slysadeild til skoðunar. Rafbyssan, stór vasahnífur sem var í bíl sem drengirnir voru á og fleira var gert upptækt til eyðingar.