Hugmyndin er að fylla upp í það gat sem gamli Land Rover Defender-jeppinn skildi eftir sig. Það er auðsjáanlegt þegar horft er á klossað útlit Munro-jeppans. Bíllinn er byggður á einfaldri stigagrind og eru fram- og afturöxlar hans sjálfstæðir. Fjórhjóladrifið er alltaf til staðar gegnum 212 hestafla rafmótor og rafhlaðan er 52 kWst sem gefur honum drægi upp á 240 km. Að sögn ATAE er drægið þó meira við akstur í lágum gír, en bíllinn er búinn tveimur gangstigum og læsingum á mismunadrifi.

Hönnuðir ATAE fóru þá leið að nota fjöðrun og bremsukerfi frá íhlutaframleiðendum frekar en að hanna sinn eigin búnað. Sama má segja um yfirbyggingu sem er smíðuð hjá Ibex Automotive í Yorkshire. Að sögn þeirra vinnst margt með því, eins og að auðveldara verður að nálgast varahluti. Auk þess verður kolefnisfótspor bílsins minna fyrir vikið sem farið er að skipta máli hjá framleiðendum rafbíla. Að innan verður einfaldleikinn allsráðandi en hægt verður að fá upplýsingaskjá sem aukabúnað. Burðargetan verður eitt tonn og farangursrými tekur 1.250 lítra. Frumgerð verður tilbúin seinna á árinu sem fer þá í árs prófun, svo að búast má við bílnum í sölu árið 2022.