Rafbílum fjölgaði ört í Evrópu á síðasta ári, að því er fram kemur í samantekt á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Þar segir að ívilnanir stjórnvalda og sívaxandi tegundaúrval hafi orðið til þess að margir bíleigendur hafa skipt út brunavélinni.
Noregur hefur tekið forystu í rafbílavæðingu álfunnar, en þar í landi eru rafbílar með 16 prósenta hlutdeild í bílaflotanum.
„Það kemur ekki á óvart því norsk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir herferð í þágu rafbíla og vega þar þyngst fjárhagslegar ívilnanir,“ segir á vefnum. Í Osló er hlutdeild rafbíla nú 33,2 prósent en mun minni á landsbyggðinni, eða um rúm 4 prósent.
Ísland er í öðru sæti með 4,6 prósenta hlutdeild rafbíla á vegum og Holland því næst með 2,8 prósent.