Rafvæðing samgangna í Reykjavík dugar skammt ef íbúar vilja standa sína plikt gagnvart Parísarsáttmálanum og ná markmiði Reykjavíkurborgar um kolefnislausar samgöngur árið 2040.

Til þess þarf að auki að draga úr einkabílaeign, þétta byggð, minnka ferðaþörf með fjarvinnu og stórauka hlut almenningssamgangna, gangandi og hjólandi í umferðinni.

Þetta er ein meginniðurstaða nýrrar rannsóknar þar sem skoðað er hvaða leið sé best að fara til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum í Reykjavík fram til ársins 2050. Höfundar hennar skoðuðu sex mismunandi sviðsmyndir út frá áhrifum á beina og óbeina losun frá samgöngum.

Óbein losun ekki alltaf tekin með í reikninginn

Með beinni losun er hér átt við útblástur frá farartækjum en óbeina losunin verður einna helst til við framleiðslu bifreiða. Þrátt fyrir að áðurnefndar aðgerðir rími vel við yfirlýsta stefnu borgarmeirihlutans bendir rannsóknin til að núverandi aðgerðir Reykjavíkurborgar dugi ekki til þess að ná núverandi markmiðum fyrir árið 2040, jafnvel þó einungis væri horft til beinnar losunar.

Óbein losun hefur ekki áhrif á skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsáttmálanum. Höfundar segja það þó ekki eiga að leiða til þess að horft sé fram hjá þeirri losun þar sem áhrif losunarinnar séu ekki bundin landamærum.

Jukka Heinonen, prófessor í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans snúa aðallega að sjálfbærni manngerðs umhverfis.
Mynd/Aðsend

Ef rafvæðingu fylgir enginn samdráttur í einkabílaeign eða breytingar á ferðavenjum þá munum við einungis sjá tiltölulega vægan samdrátt í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Rafbílar bæta ekki upp mikla bílaeign

Jukka Heinonen, prófessor við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, er einn þeirra sjö vísindamanna sem unnu að rannsókninni. Hann segir að sé einungis horft til beinnar losunar frá samgöngum birtist sú tálsýn að rafvæðing bílaflotans leiði ein og sér til góðrar niðurstöðu fyrir Íslendinga.

„En þegar þú horfir til heildarlosunar á heimsvísu þá blasir önnur mynd við.“ Hann segir misræmið vera sérstaklega skarpt í ljósi þess að framleiðsla rafbíla sé auðlindafrekari en framleiðsla annarra bíla. Þá þyrfti mikinn fjölda rafbíla til að endurnýja flotann ef ekki yrði líka dregið úr einkabílaeign í Reykjavík þar sem hún sé nú hlutfallslega mest í Evrópu.

„Ef rafvæðingu fylgir enginn samdráttur í einkabílaeign eða breytingar á ferðavenjum þá munum við einungis sjá tiltölulega vægan samdrátt í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.“ Sú niðurstaða myndi ekki duga til að efna markmið Parísarsáttmálans.

Jukka segir að ein meginniðurstaða rannsóknarinnar sé að stjórnvöld þurfi ekki síður að horfa til óbeinnar losunar gróðurhúsalofttegunda í loftslagsaðgerðum sínum.

„Ef við viljum breyta núverandi þróun í loftslagsmálum með skjótum hætti þá dugar ekki að falla fyrir tálsýn og færa losunina bara eitthvert annað.“