Segja má að orðið heimsborgari eigi vel við Yesmine Olsson en eftir að hafa fæðst á Srí Lanka og varið þar fyrstu mánuðum lífs síns, var hún ættleidd af sænskum hjónum og ólst upp í litlu sjávarplássi í Suður-Svíþjóð. Seinna starfaði hún sem dansari og danshöfundur í London og New York, þar til Ísland vann hana á sitt band en hér hefur hún búið í tæpa þrjá áratugi.
Indland hefur jafnframt verið stór breyta í lífi hennar en indversk matargerð hefur alltaf heillað hana og síðar bættust Bollywood-dansarnir við.
„Ég er fædd á Srí Lanka sem mörgum finnst undarlegt, því ég er alltaf að selja Indland, en nú þegar ég hef loks opnað minn eiginn veitingastað hef ég svolítið bætt Srí Lanka við myndina,“ segir Yesmine en um er að ræða nágrannaþjóðir enda liggur eyjan Srí Lanka rétt sunnan við Indland.
Alin upp á sænskum kjötbollum
Yesmine ólst upp í Viken, litlum smábæ fyrir utan Helsingborg, með foreldrum sínum og eldri systur sem einnig var ættleidd frá Srí Lanka.
„Á æskuárunum fór ekki mikið fyrir tengingunni við Srí Lanka enda vissu fáir í kringum okkur mikið um landið. Ég var átta mánaða gömul þegar ég var ættleidd og foreldrar mínir eru rosalega sænskir,“ segir hún í léttum tón.
„Mamma og pabbi höfðu aldrei eldað indverskt,“ segir Yesmine og bætir við að það sé í raun furðulegt að hún hafi fengið svo mikinn áhuga á indverskri matargerð.
„Það er eitthvað í genum mínum sem hefur ákveðið þetta fyrir mig, því staðreyndin er sú að því lengra sem ég flyt frá upprunanum, því meiri verður þörfin.
„Það er eitthvað í genum mínum sem hefur ákveðið þetta fyrir mig, því staðreyndin er sú að því lengra sem ég flyt frá upprunanum, því meiri verður þörfin."
„Við systurnar ólumst upp á sænskum kjötbollum og öðrum hefðbundnum sænskum mat en fannst alltaf eitthvað vanta, það vantaði kryddin,“ segir Yesmine sem einhvers staðar hafði heyrt að til væri indverskur matur í stærri borgum.
„Einn daginn þegar ég var 14 ára og mamma og pabbi fóru í vinnuna stungum við systur af. Við tókum strætó frá litla Viken, eina 16 kílómetra, þangað sem við tókum bát yfir til Helsingör í Danmörku og vorum þannig komnar í nýtt land. Þaðan tókum við svo tveggja tíma lest til Kaupmannahafnar og settum stefnuna beint á Istedgade,“ rifjar hún upp hlæjandi.
„Við höfðum farið með foreldrum okkar í Tívolíið í Kaupmannahöfn og séð úrval veitingastaða á því svæði. Istedgade var á þessum tíma ein alræmdasta gata Kaupmannahafnar en þar fundum við indverskan veitingastað, þetta var svona sjabbí lítil búlla þar sem við smökkuðum indverskt lambakarrí í fyrsta sinn,“ segir Yesmine og ljómar við upprifjunina.
Systurnar náðu aftur heim áður en vinnudegi foreldra þeirra lauk svo þau heyrðu ekki af ævintýrinu fyrr en mörgum árum síðar.
„Istedgade var á þessum tíma ein alræmdasta gata Kaupmannahafnar en þar fundum við indverskan veitingastað, þetta var svona sjabbí lítil búlla þar sem við smökkuðum indverskt lambakarrí í fyrsta sinn."
„Mér finnst svo magnað að hugsa til þess að þörfin hafi verið svona sterk. Það hafði aldrei neinn talað um indverskan mat við okkur. Það voru engir Indverjar eða dökkt fólk í kringum okkur heldur, en við vorum í hópi fyrstu ættleiddu barnanna í Suður-Svíþjóð.“
Yesmine segir þær ekki hafa farið varhluta af því að líta öðruvísi út en meirihluti barnanna.
„Ég var mjög vernduð í Viken þar sem við vorum bara litlu dökku krúttin og allir þekktu okkur,“ segir hún en þær hafi þó fundið fyrir rasisma.
„Ég var aftur á móti alltaf stolt af því hver ég væri og þó að við værum kallaðar ljótum nöfnum þá hafði það ekki mikil áhrif á mig.
Ég held að það sé mömmu minni að þakka, hún var alltaf dugleg að hvetja mig áfram og undirbjó mig vel fyrir lífið.
Það var lúxus að alast upp í Viken og foreldrar okkar bjuggu okkur gott heimili. En ég var alltaf að leita að fólki sem líktist mér og kynntist afrískri fjölskyldu og lærði afríska dansa, enda var engin indversk fjölskylda á svæðinu,“ segir hún og hlær.
„Ég var aftur á móti alltaf stolt af því hver ég væri og þó að við værum kallaðar ljótum nöfnum þá hafði það ekki mikil áhrif á mig."

Leitaði uppi indverska staði
Yesmine segist hafa átt erfitt með að tengja við sænska tónlist.
„En þegar ég uppgötvaði Michael Jackson vissi ég hvað ég vildi gera.“
Yesmine hafði alltaf meiri áhuga á íþróttum og tónlist en bóklegum fögum í skóla. Hún lærði dans og fór snemma að starfa bæði sem dansari og danshöfundur.
„Sömu helgi og ég vann stærstu hæfileikakeppni Svíþjóðar: Nya Ansikten, stóð ég uppi sem trampólínmeistari Svíþjóðar, svo það var svakaleg helgi.“
Yesmine ákvað í framhaldi að reyna fyrir sér sem dansari í London.
„Ég fór alltaf á indverska veitingastaði og reyndi svo að gera réttina sjálf heima.
Ég lærði fljótt að maður getur ekki eldað alvöru indverskt nema að vita meira um uppruna réttarins. Ég fór því að lesa mér til og þurfti að beita mig hörðu enda finnst mér ekki gaman að lesa uppskriftir eða elda eftir þeim. En ég held sannarlega að þessi matargerð sé mér í blóð borin, eitthvað sem ég fékk með mér.“
„Sömu helgi og ég vann stærstu hæfileikakeppni Svíþjóðar: Nya Ansikten, stóð ég uppi sem trampólínmeistari Svíþjóðar, svo það var svakaleg helgi.“

Kom hingað með Jónínu Ben
Yesmine kom upphaflega til Íslands fyrir tæpum þremur áratugum síðan.
„Ég kom fyrst hingað með Jónínu Ben sem ég hafði unnið fyrir í líkamsræktarstöð í Stokkhólmi. Ég er henni mjög þakklát en hún sagði mér að læra einkaþjálfun, fannst ég þurfa að læra meira en dansinn.
En það var vissulega erfitt að fá verkefni sem útlendingur í skemmtanabransanum hér,“ segir Yesmine sem kom hingað reglulega þar til hún flutti alveg.
Hún yfirgaf tækifærin í London en stærsta verkefnið sem Yesmine tók þátt í þar var líklega að semja sviðshreyfingar fyrir strákabandið Backstreet Boys og fór meðal annars í tónleikaferðalag með þeim.
„Það var nú ekki allt því við æfðum í Pineapple-dansstúdíói og á hæðinni fyrir ofan var Tina Turner að æfa með sínum dönsurum,“ segir hún.
„En það var vissulega erfitt að fá verkefni sem útlendingur í skemmtanabransanum hér."
Yesmine flutti hingað var matarmenningin töluvert Þegar einsleitari.
„Ég saknaði indversks matar mikið og þó að ég færi oft á Austur-Indíafjelagið gat ég ekki borðað þar alla daga og þess vegna fór ég að prófa mig áfram sjálf.
Ég ætlaði aldrei að vinna við matargerð en eftir að ég kom hingað jókst þörfin til muna. Árið 2006 ákvað ég að gera matreiðslubók því ég fann að fólk hér á landi þekkti ekki indverska matargerð jafnvel þó að hér hafi verið og sé enn, einn flottasti og besti indverski veitingastaður heims.“
Tilfinningaþrungin ferð
Yesmine gaf út bókina Framandi og freistandi og tveimur árum síðar næstu bók: Indverskt og arabískt. „Þá hugsaði ég einmitt með mér: Hver ætli trúi því að ég hafi aldrei komið til Indlands?“ segir hún og skellir upp úr.
Það var þá sem Yesmine tók af skarið og heimsótti Indland í fyrsta sinn, árið 2008. „Ég fór á vegum Þóru Bergnýjar sem rekur Secret Garden, lítið fallegt hótel í Kerala.
Þóra hjálpaði mér mikið enda yndisleg, hún kynnti ayurveda heilsuhæli fyrir mér þar sem ég fékk að vera og lærði mikið af kokkunum þar, til að mynda um lækningarmátt ólíkra krydda,“ segir Yesmine sem heillaðist undir eins af fyrirheitna landinu.
„Það var frábært að koma til Indlands en það var líka ógnvekjandi á vissan hátt þegar ég stóð við ströndina og einhver benti mér á að þaðan væru aðeins tvær klukkustundir til Srí Lanka. Það var tilfinningaþrungið.“
Yesmine hefur aldrei komið til fæðingarlands síns, Srí Lanka.
„Ég var reyndar á leiðinni og búin að bóka flugmiða og allt saman þegar vinkona mín þar hringdi í mig og bað mig að koma ekki strax því hún væri ekki heima. Hún vildi sýna mér landið og jafnvel finna foreldra mína, en á þessum tímapunkti var ég ekki einu sinni farin að hugsa svo langt.“
„Það var frábært að koma til Indlands en það var líka ógnvekjandi á vissan hátt þegar ég stóð við ströndina og einhver benti mér á að þaðan væru aðeins tvær klukkustundir til Srí Lanka. Það var tilfinningaþrungið.“

Við áttum ekki að vera þarna
Yesmine breytti flugmiðanum og fór í staðinn ásamt eiginmanni sínum til Dúbaí að heimsækja vinkonu. Á meðan varð Srí Lanka fyrir gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni af völdum flóðbylgju sem jarðskjálfti í Indlandshafi olli. Yfir 30 þúsund mann létust og ein og hálf milljón íbúa missti heimili sitt.
Yesmine segir þau hjónin hafa orðið fyrir áfalli við að heyra fréttirnar um eyðilegginguna á þeim slóðum þar sem þau höfðu áætlað að vera.
„Við áttum greinilega ekki að vera þarna og maður varð ekki beint spenntur að fara strax aftur. Síðan hefur ástandið á Srí Lanka verið erfitt og borgarastyrjöld geisað. Svo við höfum verið á leiðinni lengi en ekki komist, en það er hátt á mínum lista.“
„Við áttum greinilega ekki að vera þarna og maður varð ekki beint spenntur að fara strax aftur."
Alltaf verið ánægð með mitt
Yesmine sagði vinkonuna hafa nefnt að þær gætu mögulega leitað blóðforeldra hennar. En ætli hún hafi virkilega aldrei leitt hugann að því?
„Ég hef haft það rosalega gott svo það var kannski ekki fyrr en síðar á lífsleiðinni að ég fór að hugsa út í það. Ég fór meira að spá í þessu þegar ég sjálf eignaðist mín börn,“ segir hún en Yesmine er gift Arngrími Fannari Haraldssyni sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Skítamóral og eiga þau börnin Harald Fannar, 24 ára, sem Arngrímur átti fyrir, og saman eiga þau svo Ronju Ísabel, 16 ára, og Óliver Emil, 8 ára.
„Ættleiðingin hefur að mörgu leyti stjórnað ferðalagi mínu. Ræturnar hafa stýrt mér. Þú sérð að hér er ég – að elda indverskan mat og dansa Bollywood,“ segir hún og hlær.
„Það er kannski skrítið að ég hafi aldrei gert neitt í þessu. Ég er mjög náin pabba mínum,“ segir Yesmine en móðir henn féll frá fyrir 15 árum síðan.
„Ég hef alltaf verið svo ánægð með mitt en ég viðurkenni að þættirnir Leitin að upprunanum hafa kveikt svolítið í mér.
En ég sé þetta frá tveimur hliðum. Það er erfitt að fara af stað í svona ferðalag og vita ekki hvað maður fær. Mögulega gæti maður fest í tveimur heimum. Það er alltaf meira undir niðri en sést á yfirborðinu en auðvitað hefur mig langað að vita meira og það er ekkert útilokað að ég geri það. Hvernig sem fer þá snýst þetta um að finna sátt við það sem maður er, og ég er sátt.“
„Ég hef alltaf verið svo ánægð með mitt en ég viðurkenni að þættirnir Leitin að upprunanum hafa kveikt svolítið í mér."

Ég er svolítið mikið
En að veitingastaðnum Funky Bhangra sem var opnaður undir lok síðasta árs í Pósthúsi mathöll við Pósthússtræti.
„Bhangra er pakistanskt dansform, hamingjuríkasti dans sem fyrirfinnst, en við bættum við orðinu funky á undan, því við brjótum allar reglur. Mig langaði að búa til stað sem byggði á bakgrunni mínum: Srí Lanka, Svíþjóð, Íslandi og Indlandi. Þetta er svolítið mikið – en ég er svolítið mikið,“ segir hún og hlær.
„Ég held að ég geti ekki gert neitt smátt.“
„Mig langaði að búa til stað sem byggði á bakgrunni mínum: Srí Lanka, Svíþjóð, Íslandi og Indlandi. Þetta er svolítið mikið – en ég er svolítið mikið,“
Maturinn sem boðið er upp á, á staðnum, er indverskur með norrænu ívafi og svolitlum áhrifum frá Srí Lanka. Yesmine viðurkennir að verða alltaf svolítið stressuð þegar hún fær indverska viðskiptavini. „Mig langar að segja við þá: Þetta er ekki indverskur matur,“ segir hún og hlær en bætir við að þeir gestir hafi alltaf gengið út ánægðir.
Ferskari og léttari útgáfur
Lógó staðarins segir ákveðna sögu en það er blanda af bengölsku tígrisdýri og íslenskum hrúti.
„Þetta er matur með attitjúd, þú færð Indland, Ísland og Svíþjóð í einum bita. Ég fattaði það ekki fyrr en um daginn að ég er meðal annars í raun að gera indverskt smörrebröd, eins konar turna, en þetta kemur frá pabba sem tekur alltaf á móti mér í Svíþjóð með smörrebröd og bjór. Við erum alltaf að þróa eitthvað nýtt og næst á dagskrá verður að bjóða upp á bröns með okkar sniði.“
Yesmine er oft spurð að því hvort gamall draumur hafi ræst með því að opna eigin veitingastað en hún segir svo ekkert endilega vera.
Undanfarinn áratug hafi hún unnið að matargerð í ýmsum formum, með námskeiðahaldi, bókaútgáfu, sem gestakokkur og sjónvarpsþáttastjórnandi, en það hafi ekkert endilega verið planið hennar.
„Ég fór á námskeið í indverskum matreiðsluskóla í New York og fékk tækifæri til að æfa mig á indverska Michelin-stjörnu staðnum Junoon í borginni hjá Vikas Khanna sem hefur stjórnað Master Chef-þáttunum í Indlandi, hinn indverski Gordon Ramsay.“
Yesmine segir tækifærið hafa verið einstakt enda sé hún ekki menntaður matreiðslumaður.
„Ég var bara í nokkra daga og það var mikill heiður. Þetta var ótrúlega flott eldhús en enginn matreiðslumannanna fékk að fara niður í kjallara þar sem töfrarnir gerðust, þar stóð afinn við að blanda kryddin. Þeim fannst ég, þessi litla dúlla, engin ógn, svo ég fékk að fara niður í kjallara og verja tíma með afanum.
Flestir Indverjar læra matargerð af ömmum sínum og öfum og seinna skólum. En ég fattaði þó að ég væri að gera eitthvað frábrugðið, með mínum stíl. Ég ákvað að halda því frekar en að reyna að gera það sem þau eru að gera, því ég gæti það aldrei. Mínar útgáfur eru ferskari og léttari. Ég er ekki að segja að þær séu betri, en þær eru öðruvísi.“
„Þeim fannst ég, þessi litla dúlla, engin ógn, svo ég fékk að fara niður í kjallara og verja tíma með afanum."

Samstíga hjón
Yesmine segist hafa hugsað með sér:
„Eftir fjórar bækur og þrjár sjónvarpsseríur, en ég held ég hafi örugglega verið fyrsti útlendingurinn sem talar ekki fullkomna íslensku með eigin sjónvarpsþátt á RÚV, hugsaði ég:
„Það er eiginlega ekki hægt að sleppa því að opna veitingastað.“
Yesmine segir þau hjón mjög samstíga og að saman hafi þau ákveðið að opna veitingastaðinn.
„Addi elskar indverskan mat. Við vorum vinir áður en við urðum kærustupar og þegar við hittumst eldaði hann indverskt svo það tengir okkur svolítið saman.“
„Addi elskar indverskan mat. Við vorum vinir áður en við urðum kærustupar og þegar við hittumst eldaði hann indverskt svo það tengir okkur svolítið saman.“
Yesmine segist alltaf hafa viljað opna stað sem væri meira en bara veitingastaður, eins konar upplifun; bland af tónlist, skemmtun og mat.
Því þau hjón eru bæði með bakgrunn í tónlist og skemmtanabransanum. En undanfarin ár hefur hún eldað heilmikið fyrir veislur. „Þar hef ég fengið mikla þjálfun og starfað með fjölmörgum færum matreiðslumönnum sem ég ber mikla virðingu fyrir.“
Mathallir nýtt tækifæri
Veitingastaðurinn var opnaður í nóvember og segir Yesmine undirbúninginn og fyrstu vikurnar hafa tekið á.
„Ég er fegin að ég er dugleg að æfa því þarna fékk ég virkilega að finna fyrir því í hverju starfið felst. Pottarnir voru miklu stærri og ég þurfti sjálf að hlaupa upp og niður í eldhús. Ég sást varla fyrstu vikurnar enda var ég bara niðri í kjallara,“ segir Yesmine en eldhús veitingastaðanna eru staðsett í kjallara húsnæðisins.
„Það er gríðarlega góð stemning þar niðri enda eldum við öll saman.“
Yesmine bendir á að þau hjón standi þó ekki ein á bak við staðinn heldur hafi þau fengið frábæra matreiðslumenn í lið með sér.
„Það eru þeir Ingólfur Þorsteinsson og Martin Kelley, sá fyrri er meira á skandinavísku nótunum en Matti hefur ferðast um Indland og er með það í hjarta sínu. Saman eru þeir mjög sterkir.“
Yesmine segir indverska matargerð krefjast mikils undirbúnings og nú sé staðan sú að annað þeirra hjóna standi alltaf vaktina á álagstímum.
„Staðurinn hefur gengið vonum framar. Við erum ótrúlega þakklát fyrir frábærar viðtökur. Ég hefði aldrei getað gert þetta nema að vera með framúrskarandi teymi með mér.“
Yesmine bendir á að mathallirnar sem sprottið hafa upp um alla borg hafi breytt háttum fólks að vissu leyti.
„Ég held að fólk fái nýtt tækifæri til að upplifa miðbæinn.“

Íslenski dansflokkurinn hringdi
Um áramótin strengdi Yesmine heit eins og svo oft áður og í þetta sinn lofaði hún sjálfri sér að gera meira af því sem hún elskar mest að gera: Dansa, syngja og hafa gaman.
„Þess vegna ákvað ég að setja Bollywood-sýninguna aftur upp,“ segir hún en stefnan er að setja í haust upp sýningu sem Yesmine gerði vinsæla í Turninum í Kópavogi og í Hörpu fyrir tólf árum.
„Nokkrum vikum eftir áramótin fékk ég símtal frá Íslenska dansflokknum,“ segir hún og hlær.
„Það kom mér algjörlega að óvörum en þau hafa verið með yndislega sýningu sem heitir Ball á Nýja sviði Borgarleikhússins og snýst um okkar sterku hjartatengingu við dans, en ætla að færa sig upp á Stóra sviðið.
Þau vantaði Bollywood dansara og buðu mér að vera með. Þetta er mikill heiður og ég er virkilega spennt. Ég dansa allt of lítið í dag og fann að ég ætti að gera meira af því. Ég hlakka mikið til að vera partur af þessari dansveislu og vona að sem flestir komi og fagni með okkur dansinum.“
„Þau vantaði Bollywood dansara og buðu mér að vera með. Þetta er mikill heiður og ég er virkilega spennt."
Yesmine er eins og fyrr segir sátt við sitt og ekki skemmdi fyrir að fá fyrsta tilboðið frá Íslenska dansflokknum, nú eftir fertugt.
„Auðvitað hef ég oft hugsað út í hvað hefði orðið ef ég hefði verið áfram í London enda var ég komin með góðar tengingar þar, en ég sé ekki eftir að hafa komið hingað, fyrir mér opnaðist nýr heimur og ég held að þetta hafi átt að fara svona,“ segir hún að lokum.