Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir það ekki rétt hjá Karli B. Örvarssyni, í skólabúðunum í Reykjaskóla, að honum hafi komið á óvart að sveitarfélagið ætti í viðræðum um rekstur skólabúðanna.

„Það er fjarri lagi og ætti ekki að gera það því hann hefur verið upplýstur um málið á öllum stigum þess frá árinu 2020,“ segir Ragnheiður. Árið 2020 hafi forsvarsmenn UMFÍ haft samband við Húnaþing vestra til að kanna hvernig rekstri Skólabúðanna væri háttað og lýst áhuga á að koma að rekstri þeirra.

„Var þá samningur við Karl Örvarsson að renna út og í ljósi áhuga UMFÍ var samningurinn framlengdur um eitt ár og var það ár hugsað til að endurskoða samninginn frá grunni og gera á honum breytingar í takt við þróun samfélagsins en samningurinn hafði verið endurnýjaður óbreyttur frá upphafi samningstímans,“ segir Ragnheiður.

Að sögn Ragnheiðar ræddi sveitarstjórnin þegar á árinu 2020 að endurskoða samning um rekstur skólabúðanna og starfsemi í húsnæðinu utan rekstrartíma skólabúðanna.

„Því varð sveitarstjórn við beiðni UMFÍ um að skoða möguleika á aðkomu þess að rekstri Skólabúðanna enda hefur UMFÍ starfrækt ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal og Laugarvatni í að verða 20 ár við góðan orðstír fyrir nemendur 9. bekkjar grunnskóla um allt land,“ segir sveitarstjórinn.

Þá segir Ragnheiður að á sama tíma og stjórn UMFÍ hafi samþykkt 27. nóvember 2020 að ganga til viðræðna um aðkomu að rekstri skólabúðanna hafi verið farið yfir áhuga UMFÍ á rekstrinum með Karli Örvarssyni. „Honum var jafnframt tilkynnt á fundinum að sveitarstjórnin ætlaði að endurskoða samninginn við hann um rekstur skólabúðanna, bæði faglega og rekstrarlega,“ segir hún.

Einnig upplýsir Ragnheiður að forsvarsfólk UMFÍ og sveitarstjórn Húnaþings vestra hafi fundað um mögulega aðkomu UMFÍ að skólabúðunum 15. janúar 2021, eða fyrir tæpu ári síðan.

Ragnheiður segir Húnaþing vestra og UMFÍ eftir að semja sín á milli.

„Um viku síðar, eða 21. janúar, funduðu forsvarsmenn sveitarfélagsins með Karli Örvarssyni og upplýstu hann um gang viðræðna. Hann var þar upplýstur um að hann hefði jafna aðkomu um rekstur búðanna og UMFÍ,“ rekur Ragnheiður. Aftur hafi verið fundað með Karli 26. ágúst í fyrra, hann upplýstur um gang viðræðnanna og ítrekað að hann hefði kost á að taka þátt í rekstrinum.

„Jafnframt var honum kynnt að á næstunni yrði undirrituð viljayfirlýsing milli sveitarfélagsins og UMFÍ um mögulega aðkomu að rekstri Skólabúðanna á Reykjum. Í viljayfirlýsingunni fólst ósk um frekari upplýsingar um rekstur skólabúðanna. Samkvæmt því yrði möguleg aðkoma UMFÍ að skólabúðunum frá hausti 2022,“ segir sveitarstjórinn.

„Starfsemi Skólabúðanna á Reykjum er samfélagslega mikilvæg, ekki bara fyrir Húnaþing vestra heldur landið allt og öll þau börn sem hafa komið til okkar og koma í fyrirsjáanlegri framtíð. Því er æskilegt að málefni sem snúa að rekstri skólabúðanna séu leyst farsællega með samtali en ekki á opinberum vettvangi,“ fullyrðir Ragnheiður.

Byggðarráð ákvað á mánudag að hefja viðræður við UMFÍ.

„Húnaþing vestra og UMFÍ eiga auðvitað eftir að semja sín á milli og gera samstarfssamning. Að því loknu verður ákveðið hvort núverandi skipulagi verður haldið áfram eða tekið upp svipað form og hefur gefist afskaplega vel í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Það á eftir að koma í ljós,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður félagsins.