Fjórum klukkustundum eftir miðnætti að kvöldi jóladags voru leikmenn fjögurra liða í handbolta, 13 til 16 ára stúlkur og drengir, ræstir út og ekið til Keflavíkur. Þeirra beið flugferð til Kaupmannahafnar og þaðan var ekið með rútu til Gautaborgar í Svíþjóð.
Tilefnið var sterkt norrænt handboltamót sem hófst í gær og nefnist Norden Cup. Lið sem hafa unnið landstitla eða náð góðum árangri eru boðin til mótsins frá öllum Norðurlöndunum. Yngstu keppendur héðan eru fæddir 2009 en hinir elstu 2006. Um ræðir þrjú lið frá Val og eitt frá Aftureldingu.


„Það er ekki sjálfgefið að börn leggi þetta á sig og sama má segja um foreldrana, það er ekki sjálfgefið að þeir séu til í að missa börnin frá sér yfir jólin,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson „rótari“ þjálfara á mótinu.
„Mín reynsla er að það séu þessar ferðir sem krakkarnir gleyma aldrei og eiga bestu minningarnar um. Það er auðvitað ævintýri að vakna um miðja nótt, fljúga út og kynnast krökkum frá öðrum löndum, að ekki sé talað um að þau eru að taka þátt í íþrótt sem þeim finnst skemmtilegust,“ bætir Óskar Bjarni við.
Sem dæmi um metnaðinn má nefna að sum íslensku liðanna æfðu á jóladag. Annað dæmi til marks um ástríðu keppenda er Sólveig Þórmundsdóttir sem dreif sig út með ’06-liðinu sínu. Það gerði hún þrátt fyrir að vera óleikfær vegna meiðsla. Hún hafði safnað fyrir ferðinni þegar meiðslin komu upp fyrir skömmu og það kom ekki til greina, að hennar sögn, að sitja heima heldur er hún á staðnum samstöðunnar og ánægjunnar vegna.
„Við vorum að vinna fyrsta leikinn gegn norsku liði með einu marki,“ sagði Sólveig brött síðdegis í gær.
„Handbolti er einfaldlega það besta sem ég þekki og það skiptir engu máli þótt ég sé að missa af jólunum, ekki miðað við hvað þetta er skemmtilegt.“
„Það er alltaf reynt að búa þannig um hnútana með fjársöfnunum að félagslegar aðstæður komi ekki í veg fyrir að börn geti notið þessara tækifæra,“ segir Óskar Bjarni.

