Kona á sextugsaldri frá Mosfellsbæ hefur verið ákærð fyrir að láta tvær systur, sem eru fæddar 1928 og 1929 og eru báðar með heilabilun, útbúa sameiginlega erfðaskrá svo hún myndi erfa allar eignir þeirra. Fréttablaðið hefur ákæruna undir höndum og verður hún þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.

Eldri systirin átti í trúnaðarsambandi við konuna og hafði verið háð henni um árabil vegna versnandi heilsufars. Yngri systirin hafði verið búsett á heilbrigðisstofnun vegna heilabilunar í sjö ár þegar konan fékk eldri systurina til að útbúa erfðaskrána um að hún myndi erfa fjórar íbúðir, innbú og annað lausafé. Þá sótti hún systurnar og fór með þeim til sýslumanns þar sem erfðaskráin var staðfest.

„Ákærða notfærði sér þannig bágindi og heilabilun þeirra systra sem sökum framangreinds ástands gátu hvorki gert sér grein fyrir þýðingu ráðstafananna né um hve mikla fjármuni væri að ræða, til þess að afla sjálfri sér eignanna án nokkurs endurgjalds, en ákærðu gat ekki dulist framangreint ástand þeirra,“ segir í ákærunni.

Hjónin kynntust systrunum í gegnum félagsstarf á vegum bandaríska sendiráðsins árið 2005. Í ákæru kemur að þau neiti bæði staðfastlega að hafa nýtt fjármuni systranna til greiðslu eigin skulda en konan gengst við því að hún hafi nýtt fjármuni þeirra í eigin þágu og til rekstur fjölskyldunnar.

Kaupæði með debetkorti konunnar

Konan er sögð hafa misnotað afstöðu sína og notað debetkort yngri systurinnar í eigin þágu og fjölskyldu sinnar, meðal annars til að kaupa í matinn daglega fyrir heimilið, taka bensín en einnig til að lífa lúxus lífi.

Eiginmaður konunnar er sömuleiðis ákærður fyrir að tekið við, geymt og nýtt í eigin þágu ávinning af brotum eiginkonu sinnar.

Á tímabilinu 2012 til 2017, dró hún að sér í 2166 tilvikum rúmar 23 milljónir króna af bankareikningi yngri systurinnar. Færslurnar ná yfir fimm ára tímabil og 44 blaðsíður í ákærunni. Hún fór í leikhús, út að borða á fínum veitingastöðum, keypti aðild að Golfklúbbnum í Mosfellsbæ og keypti sé merkjavörur, meðal annars frá Giorgio Armani, Couture, Villeroy & Boch og Saks fifth avenue í New York.

Einnig dró hún að sér rúmar 52 milljónir í 34 tilvikum með því að taka pening út úr hraðbanka og kaupa gjaldeyri.

Þá dró hún að sér samtals 3.706.443 krónur af reikningi eldri systurinnar, með því annars vegar að láta skuldfæra greiðslukortareikninga vegna notkunar hennar á VISA greiðslukortum sínum. Hún hafði þá fengið umboð til að ráðstafa fjármunum eldri systurinnar fyrir hennar hönd og nýtti það í eigin þágu.

Ákærð fyrir að stela lausum munum frá heimili systranna

Konan er einnig ákærð fyrir að hafa stolið munum frá fimm íbúðum í eigu systranna. Vegna trúnaðarsambands við systurnar hafði hún óheftan aðgang að heimilum þeirra. Þá er talið að hún hafi meðal annars stolið Gauntenhaus pels, silfur borðbúnaði að virði 473 þúsund króna, gullhúðað box með spöng og stokkabelti fyrir upphlut að virði rúmlega tveggja milljóna króna og málverk eftir Gunnlaugu Scheving að virði 80 þúsund króna.