„Í dag setjum við í jörðu fyrstu rætur fyrsta Tómasarlundarins nálægt rótum Tómasar sjálfs í Svarfaðardal. Við ætlum síðan að skipuleggja Tómasarlundi um land allt og láta þá vaxa og dafna með markvissum hringferðum um landið,“ segir Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður.

Jakob, ásamt vinum og velunnurum Tómasar Magnúsar Tómassonar tónlistarmanns sem lést fyrir aldur fram árið 2018, stendur fyrir verkefninu Tómasarlundur um land allt! Verkefnið felur í sér að rækta skóg og lund sína í senn í minningu Tómasar sem hefði fagnað 66 ára afmæli í dag.

Skórækt og geðrækt fara saman

„Það var öllum mikið tilhlökkunarefni að hitta og starfa með Tómasi því að það var ávísun á endalausa gleði og léttleika. Við söknum hans eðlilega mjög mikið og nú hafa vinir hans og velunnarar ákveðið að minnast Tómasar með sérstökum hætti í einhverju sem við köllum að rækta Tómasarlund,“ segir Jakob.

„Í þessu felst að það fara saman skógrækt og geðrækt,“ bætir hann við. Verkefnið er unnið í samvinnu við Græna herinn, skógræktarfélögin um land allt og Upplifðu Ísland. Fjöldi sjálfboðaliða og áhugamanna um bæði geðrækt og skógrækt kemur að verkefninu.

„Við munum gróðursetja og hugsa um Tómasarlundina með markvissu samspili og samvinnu í sumar og næstu sumur. Þetta fer svo ágætlega saman við stefnuskrá Græna hersins, að hreinsa upp hringveginn næstu fimm árin,“ segir Jakob, en Græni herinn hóf starfsemi sína fyrir 21 ári og var Jakob einn af stofnendum hersins ásamt Tómasi.

Græni herinn endurvakinn í fyrra

Þá tóku 1.500 sjálfboðaliðar þátt í að gróðursetja, hreinsa og fegra landið. Græni herinn var endurvakinn á síðasta ári og markmið hans næstu fjögur árin er að fegra hringveginn með svokölluðu risa­plokki. „Markmið Græna hersins í samvinnu við fjölmarga aðila er að gera landið okkar fagra enn fegurra, hreinna og fýsilegra til að sækja heim. Það að hafa Tómasarlund um land allt, það er krúnudjásn hins græna, væna, fagra og ekki síst geðprúða Íslands,“ segir Jakob.

Þá segir hann Tómas hafa verið einkar geðprúðan mann svo verkefnið passi honum og minningu hans einstaklega vel. „Hann var með yndislega nærveru og glaða lund sem hafði svo ótrúlega smitandi og góð áhrif á alla sem í kringum hann voru,“ segir Jakob.

„Við stefnum að því að verkefnið verði hvati til þess að við verðum betri þegnar, betri við hvert annað og betri við landið okkar og við höfum grun um að það sé að öllum líkindum ekki til betri leið til að halda minningu Tómasar lifandi,“ segir Jakob og kveður.