„Þetta er einstakur stofn héðan úr Mývatni og svolítið merkilegt að geta ræktað upp eitthvað sem á uppruna sinn hér og nýta orkuna úr jarðhitanum,“ segir Júlía K. Björke, framkvæmdarstjóri MýSköpunar, en fyrirtækinu tókst í vikunni að búa til spirulinuduft úr örþörungum úr Mývatni.

Á heilsa.is segir að spirulina sé þekkt sem ein næringarríkasta fæða sem völ er á. Hún þrífst í heitum, sólríkum löndum eins og Mið- og Suður-Ameríku og Afríku.MýSköpun fékk nýverið 13,5 milljóna króna styrk úr Matvælasjóði og þá er í gildi samningur við Landsvirkjun um rafmagn og hita en nóg er af því í Mývatnssveit.

Spirulína séð í smásjá.

Júlía segir að verkefnið sé búið að vera í gangi í þó nokkur ár. Arnheiður Almarsdóttir stýrði því áður með það að markmiði að rannsaka hvort það væru einhverjir þörungar sem væri hægt að nýta til manneldis í Mývatni.

Eftir fjölmargar sýnatökur tókst að finna annars vegar spirulinu en einnig chlorellu. Báðir þörungar þurfa mikið vatn og hita og vilja vaxa í aðstæðum sem eru ansi langt frá íslenskum veruleika, eða 30-35 gráðum.

„Við nýtum jarðhitann hér í Bjarnarflagi, við þurfum vel upphitað hús og mikið rafmagn því þetta er eiginlega eins og gróðurhús í vatni. Báðir þörungarnir, spirulina og chlorella, eru þannig þörungar að þeir fjölga sér á ógnarhraða ef þeim líður vel.“Júlía, sem er uppalin í Reykjavík og er jarðefnafræðingur og jarðhitasérfræðingur, flutti ásamt eiginmanni sínum Helga Arnari Alfreðssyni í sveitina árið 2013.

Verkefnið hefur verið rekið á rannsóknarstyrkjum.

Hún segir að þegar hún var fengin í verkefnið hafi hún lítið þurft að hugsa sig um. „Ég er með mikinn áhuga á fjölnýtingu á jarðhita, hvernig eigi að nýta hliðarafurðirnar því eins og staðan er í dag eru Íslendingar aðeins að nýta um 50 prósent af hitanum. Það er þessi háhitagufa sem er nýtt og það er alltaf verið að leita leiða til að nýta hinn helminginn.“

Þörungarnir eru ræktaðir í gömlu Kísiliðjunni í Bjarnarflagi og er markmiðið að framleiða spirulinuduft í fæðubótarefni og halda svo áfram í vöruþróun. „Þetta er fyrsta íslenska spirulinan og þá þarf ekki að flytja hana inn þannig að það er miklu minna kolefnisspor. Þannig að þetta er þá orðin mjög umhverfisvæn og næringarrík fæða.

Þetta er ennþá þróunarverkefni þó að við séum byrjuð að framleiða. Verkefnið hefur verið rekið á rannsóknarstyrkjum hingað til en núna er kominn grundvöllur fyrir því að skila einhverju fjármagni inn en halda samt áfram þróuninni. Stefnan er allavega sú að koma með vöru á markað á þessu ári,“ segir Júlía.

Skammt frá Jarðböðunum er verið að nýta jarðhitann til að rækta spirulínu.