Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, hefur óskað eftir útskýringu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og starfsfólki velferðarsviðs á máli manns sem að lögreglan sagði í dagbók sinni í morgun í straffi frá gistiaðstöðu sinni og hafi þess vegna þurft að gista úti í sjö stiga frosti.
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þurfti hann ekki að gista úti. Það var tekin ákvörðun um að hleypa ákveðnum einstaklingi ekki inn, en sú ákvörðun var tekin í fullu samráði við lögregluna og í þeirri fullvissu að hann þyrfti ekki að sofa úti. Það er mjög sjaldgæft að þetta gerist í Gistiskýlinu að einhverjum sé vísað frá og þá er það að undangengnum alvarlegum árásum. Við auðvitað berum ábyrgð á öllum okkar gestum en það kemur fyrir að við þurfum að beita svona úrræðum,“ segir Regína.
En er þá ekki skrítið að lögreglan hafi birt þessa færslu í morgun?
„Jú, ég tel það mjög undarlegt að þessi færsla sé birt með þessum hætti og hef þegar haft samband við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Regína og að hún hafi óskað eftir útskýringu frá lögreglunni á þessari færslu og að málið sé til rannsóknar hjá bæði lögreglunni og velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Hún segir að hún geti ekki farið dýpra í mál þessa einstaklings en ítrekar að slíkar ákvarðanir, að meina fólki aðgang, séu ekki léttvægar og ekki teknar nema að mjög vandlega athuguðu máli.
„Það er mjög sjaldgæft og reynt að leita allra leiða, en þó með þeim formerkjum að við verðum að geta tryggt öryggi þeirra gesta sem eru í húsi,“ segir Regína og að þau séu mjög meðvituð um þann kulda sem er úti og almennt um veðuraðstæður.
Alls eru 60 pláss í boði hjá Gistiskýlinu að sögn Regínu.
„Það er allt gert til að reyna að koma í veg fyrir að einhver þurfi að sofa úti.“
Hér að neðan er frétt þar sem farið er yfir dagbók lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt en færslan var svona:
02:08 Óskað eftir aðstoð lögreglu að hóteli í hverfi 101 þar sem starfsfólk var í vandræðum með ofurölvi mann. Maðurinn gistir venjulega í aðstöðu á vegum Reykjavíkurborgar en hefur verið í straffi þar síðustu daga og gistir núna á götunni í -7 gráðu frosti. Maðurinn fékk gistingu í fangageymslu lögreglu.