Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra mun á næstu dögum funda með lögreglustjórum landsins um hvort rafbyssuvæða eigi almenna lögregluþjóna. Sjálfur kvaðst hann á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær eindregið þeirrar skoðunar að bæta þurfi öryggismál lögreglumanna og að notkun rafbyssna komi vel til greina.

Jón segir að lögregluyfirvöld á hinum Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og Svíþjóð, hafi varað yfirvöld á Íslandi við því að tíðari vopnaviðskipti í undirheimum yrðu að veruleika hér á landi eins og gerst hafi ytra. Þess sjáist nú stað í auknum mæli. Íslendingar þurfi því að taka umræðuna um hvernig öryggi lögreglumanna í breyttum aðstæðum verði sem best tryggt.

Hann segir að rafbyssuvæðing hafi reynst vel á hinum Norðurlöndunum og í Bretlandi og dregið þar úr alvarlegum meiðslum bæði lögreglumanna og afbrotamanna þegar til átaka hafi komið á milli þeirra. Ógnin af rafbyssunum sjálfum hafi haldið aftur af glæpamönnum á vettvangi.

Aðalatriðið í þessum efnum sé að viðurkenna veruleikann sem blasi við, „um 300 útköll sérsveitar lögreglunnar á síðustu árum tengdust vopnaviðskiptum,“ bendir hann á – og nú sé svo komið að berskjaldaðir lögreglumenn með kylfuna eina að vopni veigri sér við að standa vaktina á þeim svæðum þar sem tíðni afbrota er hæst, svo sem í miðborg Reykjavíkur um helgar og nætur.