Alþingi var slitið um klukkan tvö í nótt eftir að umræður um útlendingfrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra höfðu farið fram í um sex klukkustundir. Þingmenn Pírata og Samfylkingar voru þau sem ræddu frumvarpið sem lengst en á meðan umræðunni stóð var Jódís Skúladóttir þingkona Vinstri grænna í forsetastólnum.

Frumvarpið er nú á sinni annarri umræðu í þinginu og á eftir að fara aftur til nefndar áður en það fer í sína þriðju umræðu. Málinu var frestað á haustþingi þar til eftir áramót og hefur verið það sem mest er rætt á þingi frá því að það kom aftur saman eftir áramót.

Þingfundur er á dagskrá klukkan 10.30 í dag og er frumvarpið fyrsta mál á dagskrá á eftir óundirbúnum fyrirspurnum. Birgir Ármannsson forseti Alþingis sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ekki hefði enn komið til tals að beita þingskaparákvæði um að stöðva umræðuna með atkvæðagreiðslu.

„Við fengum heimild meirihluta þingsins í atkvæðagreiðslu klukkan þrjú til að vera lengur en þingsköp kveða á um, sem er átta á venjulegum degi,“ sagði Birgir í gær og að það þingmenn þurfti að spýta í lófana svo hægt sé að taka önnur mál fyrir.