Þingfundi lauk rétt eftir klukkan þrjú í nótt og þá tekið hlé á umræðu þingmanna um fjárlög næsta árs. Það voru ekki margir þingmennirnir sem stóðu svo lengi í sal og ræddu fjárlögin en mest töluðu þeir Björn Leví Gunnarsson, Jóhann Páll Jóhannsson og Stefán Vagn Stefánsson, Haraldur Benediktsson og Andrés Ingi Jónsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir sem sinnti störfum forseta þingsins í fjarveru Birgis Ármannssonar sleit svo fundi og tók málið af dagskrá klukkan 03:14.
Þingfundur hefst svo á ný klukkan tíu í dag og þá eru fjárlög þriðja mál á dagskrá. Það má búast við því að umræður muni standa eitthvað fram eftir því nú þegar eru þrettán á mælendaskrá.
Meðlimir stjórnarandstöðunnar lögðu fram sameinaða breytingartillögu í gær og standa sameinuð í umræðunni. Þingmaður Viðreisnar sagði í samtali við Fréttablaðið að það væri meðvitað og að þannig vonuðust þau til að ná sínu í gegn.