Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands, ræddu tvíhliða samskipti ríkjanna tveggja og stöðu mála eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á fundi sínum í dag. Fox er í heimsókn á Íslandi og ræddu þeir saman málin á fundi á Nesjavöllum.

Guðlaugur Þór hefur verið tíðrætt um tækifærin sem felast í auknum samskiptum Íslands og Bretlands eftir Brexit. Það kemur því ekki á óvart að hann hafi nýtt heimsókn Fox, sem er í systurflokki Guðlaugs á Bretlandi, til að ræða þessi mál frekar. „Samband Bretlands og Íslands verður áfram sterkt óháð því hver niðurstaðan um Brexit verður. Við höfum þegar tryggt að núverandi tollkjör haldist ef Bretland gengur úr ESB án samnings og hlökkum til að hefja viðræður um viðamikinn framtíðarsamning þegar þar að kemur,“ er haft eftir Guðlaugi í fréttatilkynningu.

Fox hefur verið formaður innra starfs breska íhaldsflokksins, varnarmálaráðherra Bretlands og tók svo við núverandi embætti sínu sem utanríkisviðskiptaráðherra í júlí 2016. „Á milli Bretlands og Íslands hefur um árabil verið góð vinátta en líka lífleg viðskipti enda erum við samherjar þegar kemur að frjálsri milliríkjaverslun. Við erum staðráðin í að styrkja enn frekar öflugt viðskiptasamband þegar Bretland gengur úr ESB,“ sagði Liam Fox í kjölfar fundarins.