„Tengsl Norður­landanna og Eystra­salts­ríkjanna styrkjast með hverju árinu. Við stöndum fyrir sam­eigin­leg gildi og styðjum marg­hliða sam­vinnu og al­þjóð­legt skipu­lag byggt á reglum, sem sí­fellt er sótt að.“

Þetta sagði Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra á blaða­manna­fundi með þeim Ann Linde, utan­ríkis­ráð­herra Sví­þjóðar, og Jeppe Koford, utan­ríkis­ráð­herra Dan­merkur, að loknum fundi átta utan­ríkis­ráð­herra Norður­landanna og Eystra­salts­ríkjanna í Borgar­nesi í gær.

Á fundinum var rætt um al­þjóða- og öryggis­mál í víðu sam­hengi, sem og mál­efni norður­slóða og Evrópu­mál. Norður­löndin eiga með sér náið sam­starf á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna og var sér­stak­lega rætt um með hvaða hætti megi standa vörð um nor­ræn gildi og styrkja stöðu réttar­ríkisins, lýð­ræðis og mann­réttinda sem víða eiga undir högg að sækja.

Ráð­herrarnir ræddu einnig mál­efni norður­slóða og mikil­vægi þess að lág­marka spennu á svæðinu. Þá voru lofts­lags­mál rædd og sam­þykkt sam­eigin­leg á­lyktun þar um.

Stol­ten­bergs skýrslan grunnur

Á fundinum var rætt um ný­lega skýrslu um fram­kvæmd til­lagna úr svo­kallaðri Stol­ten­bergs skýrslu frá 2009 um fram­tíðar­sýn fyrir nor­rænt sam­starf og aukið sam­starf Norður­landanna á sviði öryggis- og varnar­mála. Að henni unnu Al­þjóða­mál­stofnun Há­skóla Ís­lands og Utan­ríkis­stofnanir Dan­merkur, Finn­lands, Noregs og Sví­þjóðar.

Í skýrslu Stol­ten­bergs voru settar fram þrettán til­lögur sem miða að því að styrkja nor­rænt sam­starf á sviði utan­ríkis- og öryggis­mála. Þar á meðal var til­laga um að Norður­löndin taki í sam­einingu að sér gæslu loft­rýmis við Ís­land, undir stjórn ís­lenskra yfir­valda og sam­eigin­leg land­helgis­gæsla á nor­rænu haf­svæði.

Þá var lagt til að stofnuð yrði nor­ræn við­bragðs­sveit á sjó sem sér­hæfði sig í leit og björgun og komið verði á sam­eigin­legu gervi­hnatta­kerfi yfir heim­skauts­svæðinu. Þá voru ríkis­stjórnir Norður­landanna hvattar til að sam­þykkja gagn­kvæma sam­stöðu­yfir­lýsingu sem skuld­bindi þjóðirnar til að bregðast við ef eitt landanna verður fyrir árás eða ó­við­eig­andi þrýstingi. Að auki eigi þjóðirnar að tryggja öryggi og hags­muni sína gagn­vart öðrum ríkjum sem gera til­kall til í­taka á norður­slóðum.

Fréttablaðið/Valli

Á Borgar­nes­fundinum í gær var að til­lögu Ís­lands á­kveðið að vinna á­fram að eflingu nor­ræns sam­starfs, nú með til­liti til nýrra ógna og marg­vís­legra breytinga á al­þjóða­vett­vangi. „Nor­rænu ráð­herrarnir sam­þykktu að hefja vinnu við að efla enn frekar sam­vinnu í utan­ríkis- og öryggis­málum. Heimurinn hefur breyst gríðar­lega að­eins á síðustu 10 árum og Norður­löndin þurfa að meta þessar breytingar og meta hvernig þær kalla á aukið nor­rænt sam­starf,“ sagði Guð­laugur Þór. Hann vonast til að þær til­lögur liggi fyrir um miðjan októ­ber n.k.

„Við eigum ríka sam­leið með Norður­löndunum í utan­ríkis-, öryggis- og varnar­málum og ég hef lagt mikla á­herslu á að unnið verði mark­visst að því að auka sam­vinnu á þessu sviði. Nor­ræna sam­starfið er grund­vallar­þáttur í okkar al­þjóða­sam­starfi enda fara hags­munir okkar og gildi saman víðast hvar,“ segir hann.

Á fundi sínum sam­þykktu utan­ríkiráð­herrar Norður­landanna og Eystra­salts­ríkjanna sam­eigin­lega yfir­lýsingu um lofts­lags­að­gerðir í tengslum við leið­toga­fund Sam­einuðu þjóðanna um lofts­lags­mál sem fram fer í New York síðar í þessum mánuði. Að auki lýsa löndin yfir á­hyggjum sínum af skógar­eyðingu og skógar­eldum á Amazon svæðinu og bjóða fram að­stoð sína ef þörf þykir.

Fréttablaðið/Valli

Á­lyktun ráð­herranna:

„Heimurinn er nú þegar sé marg­vís­leg raskandi á­hrifum lofts­lags­breytinga. Kol­efnislosun á heims­vísu nær nýjum hæðum sem sýnir að meiri þörf er á af­dráttar­lausum og al­þjóð­legum að­gerðum í lofts­lags­málum nú en nokkru sinni fyrr. Sem utan­ríkis­ráð­herrar Norður­landanna og Eystra­salts­ríkjanna munum við stefna að metnaðar­fullum lofts­lags­að­gerðum með því að beita öllum til­tækum ráðum.

Lofts­lags­mál verða for­gangs­mál okkar á 74. þingi Alls­herjar­þings Sam­einuðu þjóðanna. Við munum leggja okkur fram við að tryggja að á lofts­lags­ráð­stefnu Sam­einuðu þjóðanna, 23. septem­ber 2019, verði af­gerandi að­gerðum hrint af stað. Leið­toga­fundurinn veitir með­byr fyrir metnaðar­fyllri fram­lög hvers ríkis til ársins 2020, sem er eina á­sættan­lega svarið við skýrslu IPCC frá síðasta hausti um hnatt­ræna hlýnun.

Við getum ekki tekið á lofts­lags­breytingum á á­hrifa­ríkan hátt án þess að vernda um­hverfið. Skógar­eyðingin og skógar­eldarnir á Amazon svæðinu og öðrum stöðum eru hryggi­leg á­minning. Leticia-sátt­málinn fyrir Amazon svæðið er góður upp­hafs­punktur fyrir al­þjóða­sam­fé­lagið til sam­starfs við skógar­löndin sem hafa skuld­bundið sig til að draga úr skógar­eyðingu og stuðla að sjálf­bærri þróun Amazon-svæðisins. Í sam­vinnu við lönd á Amazon-svæðinu eru Norður­löndin og Eystra­salts­ríkin reiðu­búin að að­stoða ef þess er þörf og þess óskað. Við berum al­þjóð­lega á­byrgð á og skuldum komandi kyn­slóðum að vernda lofts­lagið.“