Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joes Biden Bandaríkjaforseta, ræddi við fulltrúa allra Norðurlandanna um ásælni Rússa og viðbrögð við því að þeir ögri Úkraínumönnum enn frekar. Þetta kemur fram á vef Hvíta hússins.
Rússar hafa komið fyrir miklu herliði við landamæri Úkraínu og styðja leynt og ljóst aðskilnaðarsinna í Donbass-héraði. Krímskaga tóku þeir með valdi árið 2014 og innlimuðu í Rússland, við mikil mótmæli Vesturlanda.
Staðan milli Bandaríkjanna og Rússlands er afar viðkvæm, en Joe Biden hefur tekið mun fastar á Vlad­ímír Pútín Rússlandsforseta en forveri hans, Donald Trump, gerði. Pútín segir það rétt hvers ríkis að færa herlið til innan sinna landamæra og neitar að færa lið sitt frá landamærum Úkraínu.
Samkvæmt frétt Hvíta hússins voru öll Norðurlöndin tilbúin til þess að setja á refsiaðgerðir gegn Rússum, láti þeir ekki af árásargirni sinni gagnvart Úkraínu. En mikilvægi þess að draga úr spennunni með diplómatískum leiðum var einnig ítrekað. Meðal annars í gegnum viðræðunefnd Atlantshafsbandalagsins og Rússlands.
Stuðningurinn við fullveldi Úkraínu, landamærakröfur landsins og rétt hvers ríkis til þess að velja sér bandalög, var einnig ítrekaður.