Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er stödd í Helsinki til þess að halda upp á 75 ára stjórnmálasamband Íslands og Finnlands.

Þar fundaði hún með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, og ræddu þau meðal annars samstarfstækifæri í grænum orkulausnum og stríðið í Úkraínu.

„Það er ákaflega ánægjulegt að fagna 75 ára stjórnmálasambandi Íslands og Finnlands. Löndin eiga í nánu samstarfi á ýmsum sviðum og til staðar eru fjölmörg tækifæri til að styrkja og dýpka sambandið enn frekar,“ sagði Þórdís.

Einnig hitti Þórdís Kolbrún forseta Finnlands, Sauli Niinistö, í sendiherrabústað Íslands í Helsinki þar sem haldið var upp á stjórnmálasambandsafmælið.