Birgir Þórarins­son, þing­maður Mið­flokksins, gerði kyn­ferðis­legt of­beldi og á­reitni gagn­vart konum í þjóð­þingum að um­fjöllunar­efni í upp­hafi þing­fundar sem hófst klukkan þrjú í dag. Ræddi Birgir þar nýtt átak Evrópu­ráðsins sem hleypt var af stokk í síðustu viku og snýr að því að upp­ræta kyn­ferðis­legt of­beldi og á­reitni í þjóð­þingum ríkja ráðsins. 

„Það heitir, með leyfi for­seta, Not In My Parli­a­ment eða Ekki á okkar þingi,“ sagði Birgir og veifaði út­prentuðu spjaldi með skila­boðunum. Hann skoraði á for­seta Al­þingis að prenta út ein­tök fyrir alla þing­menn svo hægt væri að taka mynd af þeim með spjöldin til að sýna sam­stöðu. 

„Hátt­virtir þing­menn, stöndum saman!“ sagði Birgir að lokum en í máli sínu vísaði hann í töl­fræði, sem fram kemur í skýrslu Evrópu­ráðsins um reynslu þing­kvenna, og sýnir að 40 prósent kvenna í evrópskum þjóð­þingum hafa orðið fyrir kyn­ferðis­legri á­reitni. Í 70 prósent til­vika eru karl­menn ger­endur. Ís­land væri engin undan­tekning en slíkt tíðkaðist einnig á Alþingi.

Skemmst er að minnast Klausturs­málsins marg­um­talaða þar sem sex þing­menn úr Mið­flokki og Flokki fólksins ræddu fjálg­lega og með niðrandi hætti um aðra þing­menn, einkum kven­kyns, sem og fólk úr sam­fé­laginu öllu.

Birgir er sjálfur þing­maður Mið­flokksins en hann sagði í yfir­lýsingu til Frétta­blaðsins í dag að hann hygðist fara þess á leit að haldinn verði flokks­ráðs­fundur til að fara yfir stöðuna í þing­flokki Mið­flokksins og að stokkað yrði upp í verka­skiptingu þing­manna. 

„Mér finnst ekki rétt að þeir fé­lagar mínir í þing­­flokknum sem stigu tíma­bundið til hliðar og sneru síðan til þing­­starfa sinna á nýjan leik gangi að ó­­breyttu fyrir­­komu­lagi á trúnaðar­­störfum sínum fyrir flokkinn sem vísu,“ skrifaði Birgir og þar við ó­vænta endur­komu þeirra Gunnars Braga Sveins­sonar og Berg­þórs Óla­son á þing fyrir tæpri viku.