Vilhjálmur Freyr Björnsson sem var nafngreindur í gær vegna dóms fyrir vændiskaup, frelsissviptingu, sérlega hættulega líkamsárás og kynferðisofbeldi í garð konu ræddi árásina í samtali við kristilegu sjónvarpsstöðina Omega stuttu eftir árásina.

Héraðsdómur Reykjavíkur birti nafn Vilhjálms í gær en fyrst þegar dómurinn féll var gætt nafnaleyndar.

Stundin vakti fyrst athygli á því að Vilhjálmur hefði rætt árásina í samtali við Omega stuttu eftir að hann var handtekinn. Hægt er að sjá viðtalið hér fyrir neðan.

Í viðtalinu ræðir Vilhjálmur uppvaxtarárin á Akranesi og hvernig hann hafi farið af sporinu og leiðst út í fíkniefnaneyslu.

Umrætt kvöld hafi hann að eigin sögn verið „einmana“ og að hann hafi drukkið þrjá sprittbrúsa áður en hann framdi ljótasta hlut sem hann hafi gert og beitt ofbeldi.