Ríkis­sak­sóknari New York-ríkis rann­sakar nú á­sakanir nokkurra kvenna gegn ríkis­stjóranum Andrew Cu­omo en fjöl­margar konur hafa nú stigið fram og sakað Cu­omo um kyn­ferðis­lega á­reitni. Þetta kemur fram í frétt CNN um málið en Cu­omo neitar á­sökununum al­farið.

Rann­sak­endur ríkis­sak­sóknara ræddu við fyrstu konuna sem á­sakaði Cu­omo, Linds­ey Boy­lan, í um þrjá klukku­tíma um helgina og verður rætt frekar við hana í vikunni, að því er kemur fram í frétt CNN.

Rann­sóknin er sögð ganga vel en er enn á frum­stigi. Margar á­sakanir hafa bæst við eftir að ríkis­sak­sóknari á­kvað að koma á fót á­bendingar­línu og vefsíðu með upplýsingum um málið.

Boy­lan steig fyrst fram í fyrra þar sem hún sagði Cu­omo hafa reynt að kyssa sig þegar hún starfaði sem að­stoðar­maður hans. Á­sakanir hennar litu síðan aftur dagsins ljós í lok febrúar eftir að greint var frá mis­ræmi í fjölda dauðs­falla CO­VID-19 á hjúkrunar­heimilum en Cu­omo hafði þar verið sakaður um að reyna að leyna upp­lýsingum og jafn­vel taka við greiðslum frá heil­brigðis­stofnunum í staðinn.

Nokkrum dögum síðar stigu tvær aðrar konur fram, annars vegar Anna Ruch, sem hitti Cu­omo í brúð­kaups­veislu árið 2019, og hins vegar Char­lotte Bennett, sem hafði starfað sem að­stoðar­maður Cu­omo líkt og Boy­lan. Bennett ræddi einnig lengi við rann­sóknar­menn síðast­liðinn mánu­dag.

Nýtur ekki stuðnings flokksins

Líkt og áður segir hefur Cu­omo í­trekað neitað því að hafa á­reitt neinn en mögu­lega hafi verið hægt að túlka hegðun hans á rangan hátt. Þá sagði hann það miður ef ein­hverjum þætti hegðun hans ó­við­eig­andi þar sem það hafi aldrei verið mark­mið hans.

Fjöl­margir hafa nú kallað eftir því að Cu­omo segi af sér vegna málsins, þeirra á meðal leið­togi Demó­krata innan öldunga­deildarinnar og þingmaður fyrir New York-ríki, Chuck Schumer, og hinn öldunga­deildar­þing­maður New York-ríkis, Kirsten Gilli­brand.

Cu­omo sagði á blaða­manna­fundi fyrir helgi að stjórn­mála­menn væru búnir að komast að niður­stöðu í málinu þrátt fyrir að þekkja ekki til þess per­sónu­lega. „Að mínu mati er það bæði gá­laust og hættu­legt,“ sagði Cu­omo síðast­liðinn föstu­dag.

Um helgina stigu síðan tvær konur til við­bótar fram sem höfðu starfað fyrir Cu­omo, þar af ein sem sakaði Cu­omo um kyn­ferðis­lega á­reitni fyrir rúmum tveimur ára­tugum. Cu­omo í­trekaði á sunnu­dag að hann myndi ekki koma til með að segja af sér vegna málsins.