Tvö smit greindust utan sótt­kvíar í gær en í báðum til­fellum var um bólu­setta ein­stak­linga að ræða. Að sögn Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis er ekki ó­við­búið að smit greinist hjá bólu­settum en það sé ó­vana­legt að ekki hafi tekist að rekja smitin til annarra smita.

„Þetta er fyrsta sem við greinum núna án þess að geta rakið smitið til landa­mæranna eða til annarra sem hafa greinst, þannig að það er svo­lítið ó­vana­legt og það segir okkur að veiran sé komin inn í sam­fé­lagið,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið. Ekki liggur fyrir um hvaða afbrigði veirunnar er að ræða.

Ræða við staðarhaldara vegna smits á skemmtistað

Annar þeirra sem greindist í gær var á skemmti­staðnum Banka­stræti Club um helgina, bæði föstu­dag og laugar­dag. Að­spurður um hversu margir verða sendir í sótt­kví vegna þess ein­stak­lings segir Þór­ólfur að það sé erfitt að segja.

Enn á eftir að á­kveða hvort, og þá hvernig, ein­staklingar sem voru á skemmtana­lífinu um helgina verða boðaðir í sýna­töku. „Við eigum eftir að skoða það að­eins betur með staðar­höldurum á þessum stað sem um ræðir og komum þá með sér­staka til­kynningu um það.“

Gestir eru þó hvattir til að vera sérstaklega vakandi og fara í sýnatöku ef einkenna verður vart. „Við vitum ekki ná­kvæm­lega hver tengslin hafa verið á svona skemmti­stað, það er stór spurning, en við erum að hvetja alla til að hala niður rakningarappinu til að auð­velda okkur rakninguna,“ segir Þór­ólfur enn fremur.

Skoða mögulegar aðgerðir

Að sögn Þór­ólfs mun á næstu dögum koma í ljós hvort að út­breidd bólu­setning Ís­lendinga nái að halda smitum sem koma upp í skefjum. „En við vitum að bólu­setning er ekki 100 prósent og við vitum að fólk sem er bólu­sett getur tekið veiruna, og fær þá yfir­leitt frekar vægari ein­kenni en óbólu­settir, þannig að þetta er ekkert ó­við­búið.“

Engar sam­komu­tak­markanir eru nú í gildi innan­lands en mögu­lega þarf að endur­skoða að­gerðir. „Ef við förum að sjá ein­hverja meiri út­breiðslu, þá þurfum við að fara að hugsa hvað við eigum að gera í því, ég tala nú ekki um ef við förum að sjá ein­hver al­var­leg veikindi,“ segir Þór­ólfur og bætir við að það sé ýmis­legt til skoðunar, meðal annars á landa­mærunum.