Lögreglan mun ræða við manninn sem var stunginn fyrir framan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg um leið og ástand hans leyfir. Hann er ekki lengur í lífshættu að því er fram kemur nýjustu tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Vitnisburður hans og lýsingar gætu varpað ljósi á málið en lögreglan vill ekki fara náið út í efni rannsóknarinnar meðan hún er enn í gangi. Karlmaður á þrítugsaldri situr áfram í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn málsins en hann var handtekinn í heimahúsi í Kópavogi. Maðurinn sem var stunginn gæti þá staðfest hvort um sé að ræða árásarmanninn, en lögreglan hefur einnig stuðst við efni úr öryggismyndavélum í bænum.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að maðurinn væri á batavegi. Honum var haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hann var stunginn en hann hlaut alvarlega áverka.

Lögreglan sagði fyrir nokkru að málið væri rannsakað í tengslum við bílabruna í Kópavogi. Nóttina sem maðurinn var stunginn var kveikt í tveimur bílum, í Kópavogi og í Árbæ.

Eigandi bílsins í Árbæ segir að hnífur hafi fundist nálægt bílnum en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir lögregluna skoða alla möguleika, og búið sé að leggja hald á fleiri en tvo hnífa. Aðspurður um tengingu við bílabrunanna segir Grímur að lögreglan skoði báða, þó upphaflega kom fram að hnífaárasin væri mögulega tengd bílabrunanum í Kópavogi.

Rannsókn málsins miðar vel að sögn lögreglu.