Lög­reglan á Suður­landi kemur til með að ræða við að­stand­endur kín­versku ferða­mannanna sem fundust látin á Sól­heima­sandi fyrir helgi. Að­stand­endum var til­kynnt um lík­fundinn síðast­liðinn fimmtu­dag og komu til landsins í dag.

Lög­reglan vonast til að að­stand­endur geti gefið skýrari mynd af tengslum ferða­mannanna en talið er að fólkið, sem ferðaðist saman, hafi verið par.

Ekki hefur verið á­kveðið hve­nær líkin verða krufin en það kemur til með að eiga sér stað í vikunni segir Oddur Árna­­son­, yf­ir­lög­­reglu­þjónn lög­reglunnar á Suður­landi, í sam­tali við Morgun­blaðið.

Dánar­or­sök liggur ekki fyrir

Allar líkur eru á því að parið hafi orðið úti en líkin bera merki þess að of­kæling hafi orðið fólkinu að bana. Dánar­or­sök mun þó ekki liggja fyrir fyrr en að af­lokinni krufningu.

Ferða­mennirnir voru bæði á þrí­tugs­aldri, fædd 1999 og 1997. Lík konunnar fannst skammt frá göngu­­­stíg að flug­­­vélar­flakinu á Sól­heima­sandi og lík mannsins stuttu síðar 150 metra frá henni. Vinnu á vett­vangi er lokið en rann­sókn málsins heldur á­fram næstu daga.