Jákvæðni ríkir í stjórnarflokkunum um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Þingflokkar allra flokkanna þriggja hafa fundað og veitt formönnum sínum umboð til að ræða við hina oddvita stjórnarflokkanna.

„Þetta blasir við sem fyrsti kostur,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og aðrir þingmenn flokksins sem Fréttablaðið ræddi við eru jákvæðir um viðræður við Framsókn og Vinstri græn.

Varaformaður Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, segir kjósendur hafa kallað eftir því að stjórnin sitji áfram og er vongóð um að flokkarnir nái saman.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir ótímabært að ræða kergju í samstarfinu vegna umhverfis- og hálendismála á þessu stigi. „Þau eru bara rétt byrjuð að stinga saman nefjum.“ Hann segir ánægjulegt að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi fengið góða kosningu.

Atburðir sunnudags og mánudags varpa þó skugga á stjórnarmyndunina en óvissa um talningu í tveimur kjördæmum hefur haldið fjölda þingmannsefna í óvissu um pólitísk örlög sín.

Endurtalningu var ekki lokið í Suðurkjördæmi þegar blaðið fór í prentun, en einn þeirra þingmanna sem duttu út við endurtalningu hefur kært endurtalninguna og óskað eftir lögreglurannsókn á málinu. Þingmenn sem Fréttablaðið ræddi við lýsa efasemdum um lögmæti endurtalningarinnar og forsætisráðherra segir málið óviðunandi.

Kristín Edwald, formaður yfirkjörstjórnar, segir málið bæði bagalegt og óheppilegt.

„Það hefur ekki verið ákveðið endanlega hvað verður gert næst. Við tökum núna eitt skref í einu, förum yfir stöðuna mjög reglulega, óskum eftir upplýsingum og viljum fá að vita hvað gerðist, hvað raunverulega fór úrskeiðis og tökum ákvarðanir á grundvelli þess og eins og ég segi er afar mikilvægt að það ríki traust um kosningarnar hjá öllum,“ segir Kristín.

Formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis segist hins vegar ekki sjá neina ástæðu til sérstakra viðbragða, spurður hvort hann ætli að axla ábyrgð á mistökunum svo sem að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð á milli talninga.

Öryggismyndavélar á talningarstað sýni að þótt svæðið hafi verið yfirgefið í nokkra klukkutíma hafi enginn farið inn í rýmið þar sem þau hafi verið geymd.