Fulltrúar allra fimm sveitarfélaganna á Snæfellsnesi munu koma saman bráðlega til að ræða óformlega um sameiningu. Fundurinn er að undirlagi Grundarfjarðar, sem er eina sveitarfélagið sem þegar er ekki í neinum sameiningarviðræðum. Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur eru í formlegum viðræðum og Stykkishólmsbær og Helgafellssveit eru í óformlegum viðræðum við Dalabyggð.

„Við eigum í margvíslegu samstarfi og fannst rökrétt að heyra í félögum okkar,“ segir Björg Ágústsdóttir, sveitarstjóri Grundarfjarðar. Hún segir fundinn óháðan þeim viðræðum sem þegar eru í gangi. „Það er vaxandi umræða um sameiningarmál á Snæfellsnesi.“

Björg Ágústsdóttir, sveitarstjóri Grundarfjarðar.
Mynd/Aðsend

Árið 2005 var tillaga um stóra sameiningu á Snæfellsnesi felld með afgerandi hætti í öllum sveitarfélögunum. Síðan þá hafa verið þreifingar, til að mynda milli Grundarfjarðar, Stykkishólms og Helgafellssveitar á síðasta kjörtímabili.

Samkvæmisleikurinn flækist enn því brátt munu Stykkishólmur og Helgafellssveit funda með Dalabyggð, sem hefur nýlokið fundi með Húnaþingi vestra. Kristján Sturluson, sveitarstjóri Dalabyggðar, segist ekki eiga von á að ákvörðun um formlegar viðræður í aðra hvora áttina verði tekin fyrr en eftir kosningar í maí. Veturinn verði meðal annars notaður til þess að kynna kosti og galla fyrir íbúum.

Ofan á þetta ákváðu fulltrúar Strandabyggðar að bjóða Dalabyggð, Húnaþingi vestra, Reykhólahreppi, Ásahreppi og Kaldaðarneshreppi í viðræður um sameiningu.

„Erindi Strandamanna var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi og ákveðið að bregðast ekki við því á meðan hinar viðræðurnar eru í gangi,“ segir Kristján.