„Þetta var hátíðarfundur og enginn að tala um Covid,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem ræddi við blaðamenn fyrir utan Ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi.
Svandís hefur ekki fengið nýjust tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis en hún býst við að þá minnisblað í dag eða á morgun. Svandís sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hún telji tilefni til að slaka á sóttvarnareglum.
Ráðstafanir vegna Covid-19 voru á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag samkvæmt vef stjórnarráðsins en þar sem ráðherra hefur ekki fengið tillögurnar verða þau mál frekar rædd á næsta fundi. Aðspurð segir hún að ríkisstjórnin muni funda um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi vegna Covid-19.
„Við munum taka það fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi en það má gera ráð fyrir óreglulegum ríkisstjórnarfundi, það er að segja á óeðlilegum tíma á fimmtudaginn þar sem við förum yfir Covid-málin til skemmri og lengri tíma,“ segir ráðherrann í samtali við Fréttablaðið.