Utan­ríkis­ráð­herrar þjóða innan Evrópu­sam­bandsins í­huga nú næstu skref vegna Rúss­lands en yfir­völd þar í landi hafa sætt mikilli gagn­rýni eftir að Alexei Naval­ny, einn helsti stjórnar­and­stæðingur Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta, var hand­tekinn fyrr í mánuðinum við komuna til landsins.

Fjöl­menn mót­mæli til stuðnings Naval­ny brutust út víða í Rúss­landi um helgina þar sem til á­taka kom milli lög­reglu­manna og mót­mælenda en þúsundir voru hand­teknir á mót­mælunum.

Þá var til að mynda Lyu­bov So­bol, banda­maður Naval­ny og for­seti rússn­enskra sam­taka gegn spillingu, hand­tekinn í miðju við­tali. Einnig særðust þó nokkrir í á­tökunum.

For­seti Pól­lands, Andrzej Duda, er meðal þeirra sem hafa kallað eftir því að Rússar verði beittir refsi­að­gerðum vegna málsins en að sögn Joseph Borrell, yfir­maður utan­ríkis­mála ESB, verður málið rætt í dag.

Áfram í varðhaldi

Líkt og áður hefur verið greint frá kom Naval­ny til landsins þann 17. janúar síðast­liðinn eftir að hafa dvalið í Ber­lín í rúma fimm mánuði en hann var fluttur til Þýska­lands eftir að byrlað var fyrir honum með tauga­eitri.

Teymi Naval­ny hefur stað­fast­lega haldið því fram að Rússar hafi staðið fyrir á­rásinni en eitrið var svipað því sem rúss­neskir út­sendarar höfðu áður notað. Rúss­nesk yfir­völd hafa þó al­farið neitað því.

Naval­ny var úr­skurðaður í 30 daga gæslu­varð­hald í síðustu viku fyrir að hafa rofið skil­orð vegna dóms frá árinu 2014 en fjöl­margir þjóðar­leið­togar gagn­rýndu úr­skurðinn. Í mynd­bands­á­varpi Naval­ny í kjöl­far úr­skurðarins var fólk hvatt til að mót­mæla fram­göngu rúss­neskra stjórn­valda.

Hann mun nú sitja í varð­haldi fram til 15. febrúar í hið minnsta en rúss­neskur dóm­stóll mun síðan á­kveða hvort Naval­ny muni þurfa að sitja inni í fangelsi í þrjú og hálft ár, líkt og skil­orðs­bundni dómurinn kvað á um.