Utanríkisráðherrar þjóða innan Evrópusambandsins íhuga nú næstu skref vegna Rússlands en yfirvöld þar í landi hafa sætt mikilli gagnrýni eftir að Alexei Navalny, einn helsti stjórnarandstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, var handtekinn fyrr í mánuðinum við komuna til landsins.
Fjölmenn mótmæli til stuðnings Navalny brutust út víða í Rússlandi um helgina þar sem til átaka kom milli lögreglumanna og mótmælenda en þúsundir voru handteknir á mótmælunum.
Þá var til að mynda Lyubov Sobol, bandamaður Navalny og forseti rússnenskra samtaka gegn spillingu, handtekinn í miðju viðtali. Einnig særðust þó nokkrir í átökunum.
Forseti Póllands, Andrzej Duda, er meðal þeirra sem hafa kallað eftir því að Rússar verði beittir refsiaðgerðum vegna málsins en að sögn Joseph Borrell, yfirmaður utanríkismála ESB, verður málið rætt í dag.
Áfram í varðhaldi
Líkt og áður hefur verið greint frá kom Navalny til landsins þann 17. janúar síðastliðinn eftir að hafa dvalið í Berlín í rúma fimm mánuði en hann var fluttur til Þýskalands eftir að byrlað var fyrir honum með taugaeitri.
Teymi Navalny hefur staðfastlega haldið því fram að Rússar hafi staðið fyrir árásinni en eitrið var svipað því sem rússneskir útsendarar höfðu áður notað. Rússnesk yfirvöld hafa þó alfarið neitað því.
Navalny var úrskurðaður í 30 daga gæsluvarðhald í síðustu viku fyrir að hafa rofið skilorð vegna dóms frá árinu 2014 en fjölmargir þjóðarleiðtogar gagnrýndu úrskurðinn. Í myndbandsávarpi Navalny í kjölfar úrskurðarins var fólk hvatt til að mótmæla framgöngu rússneskra stjórnvalda.
Hann mun nú sitja í varðhaldi fram til 15. febrúar í hið minnsta en rússneskur dómstóll mun síðan ákveða hvort Navalny muni þurfa að sitja inni í fangelsi í þrjú og hálft ár, líkt og skilorðsbundni dómurinn kvað á um.
EU to debate Russia sanctions after Navalny protest arrests https://t.co/gJ6ZLe3Pmr pic.twitter.com/HPZ5fElKvt
— Reuters (@Reuters) January 25, 2021