Á morgun, þriðjudag, verður opinn fundur í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma. Fram kemur í tilkynningu frá Alþingi að gestir fundarins verða þau Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Ólafur Örn Bragason forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar.

Að sögn formanns nefndarinnar, Bryndísar Haraldsdóttur, var það fulltrúi Pírata í nefndinni, Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, sem óskaði eftir því að fundurinn yrði haldinn. Arndís Anna óskaði þess að fundurinn yrði haldinn eftir að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í tvígang ungan svartan dreng, í annað skiptið með sérsveit ríkislögreglustjóra, í leit sinni að strokufanganum Gabríel Duane Boama.

Bryndís segir í svari til Fréttablaðsins að ekki hafi verið hægt að halda fundinn fyrr en nú en tæpur mánuður er frá því að málið kom upp.

Fundurinn hefst klukkan 9.10 á morgun og verður opinn fulltrúum fjölmiðla og almenningi meðan húsrúm leyfir.

Bein útsending verður frá fundinum á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis.