Sumir hluthafar í Festi vilja rifta fyrri ákvörðun stjórnar félagsins og draga uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra til baka. Festi er félag á hlutabréfamarkaði og hefur Kauphöllin haft starfslok Eggerts til skoðunar undanfarið.

Stjórnin hefur orðið við kröfu hluthafa og hefur boðað til fundar 14. júlí. Mikil spenna er fyrir fundinn, ekki síst er eftirvænting eftir að sjá hvaða nýja fólk mun bjóða sig fram til stjórnarsetu áður en stjórn verður kosin á fundinum. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að markmið sumra hluthafa verði að leitast við að endurraða í stjórnina og taka upp viðræður við Eggert um að fá hann aftur til starfa.

Starfslok Eggerts hafa vakið úlfúð og undrun hjá þeim sem telja hann hafa skilað rekstrarlega góðu búi. Ástæða starfslokanna er enn óljós. Í yfirlýsingu stjórnar sagði áður en samþykkt var að halda hluthafafund vegna málsins, að erfitt væri að taka samtöl í smáatriðum á hluthafafundi, þar sem til staðar væru auk hluthafa, fjölmiðlar og fulltrúar samkeppnisaðila.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu.
Fréttablaðið/Ernir

Lífeyrissjóðirnir eiga um 70 prósent í Festi. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu sem á stóran hlut í Festi, segir að Birta muni ekki með beinum hætti tjá sig um hvort vilji sé til þess að Eggert snúi aftur til starfa.

„Mitt umboð sæki ég til formanns og varaformanns Birtu milli stjórnarfunda, en samkvæmt eigendastefnu höfum við ekki afskipti af ráðningum fólks í skráðum félögum,“ segir Ólafur. „En við áskiljum okkur fullan rétt til að fara á hluthafafund til að segja okkar skoðun,“ bætir hann við.

Lífeyrissjóðir sem eiga hlutafé á markaði tengjast Samtökum atvinnulífsins og hefur verið umræða meðal hluthafa um að það kunni að bjaga þá stöðu sem nú er uppi ef stór hluti hluthafa fylgist þögull með athöfnum einkahluthafanna. Segir einn viðmælandi Fréttablaðsins að þegar framboð til stjórnar birtist fyrir hluthafafundinn í júlí muni ákveðin leikjafræði fara í gang.