Ekki stendur til að ræða breytingar á núgildandi reglugerð vegna Covid á ríkisstjórnarfundi í dag, en reglugerðin gildir til og með 12. janúar. Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra. Hins vegar séu ráðstafanir og mál því tengd sífellt til skoðunar.

Spurður um langar biðraðir sem myndast hafa vegna sýnatöku við Suðurlandsbraut segir ráðherra að samkvæmt framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi þessar löngu biðraðir nú um jólahelgina verið vegna veikinda starfsmanna.

Verið sé að skoða möguleika á því að bæta þjónustuna, meðal annars með því að bæta mönnun, skoða aðstöðu og lengja opnunartíma. Ráðherra segir að heilbrigðisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála í góðu samstarfi við Heilsugæsluna.

Þungur róður á Covid-göngudeildinni

Fjórtán einstaklingar lágu inni á Landspítala í gær með Covid-19, fimm voru á gjörgæslu, þrír þeirra í öndunarvél. Yfir fjögur þúsund manns voru í einangrun í gær og segir Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, róðurinn á deildinni þungan.

„Það eru þúsundir í umsjá deildarinnar núna og það er viðbúið að annar eins fjöldi bætist við næstu daga,“ segir Runólfur. Hann segir að einnig sé mikið um smit meðal starfsfólks deildarinnar sem auki enn á álagið á þau sem eru við vinnu.

Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans
Fréttablaðið/Anton Brink

Verklagið hefur þróast með faraldrinum

Verklagið á göngudeildinni hefur þróast með faraldrinum og er ekki hringt í alla sjúklinga eins og gert var áður, notast sé meira við rafræn samskipti í gegnum Heilsuveru. Fólk fái þó gefið upp símanúmer sem það getur hringt í, hafi það alvarleg einkenni.

„Við erum einnig með kerfisbundna nálgun sem gerir okkur kleift að greina þá meðal smitaðra sem eru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma eða óbólusettir og við beinum kröftum okkar þangað,“ segir Runólfur.

Hann segir flesta þá sem séu smitaðir af veirunni nú ungt fólk með lítil eða jafnvel enginn einkenni, um helmingur þeirra sem liggi inni á sjúkrahúsi sé óbólusettur. Þá segir Runólfur veiruna mjög útbreidda í samfélaginu og minnir á mikilvægi þess að sinna persónubundnum sóttvörnum til að forðast smit. „Þannig er hægt að minnka líkurnar á smiti.“